Nei, það er ekki að minnka áhuginn á tónleikum Radiohead. Thom Yorke snýr baki í myndavélina.
Nei, það er ekki að minnka áhuginn á tónleikum Radiohead. Thom Yorke snýr baki í myndavélina.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
FÁRRA breiðskífna hefur verið beðið af viðlíka eftirvæntingu og þeirrar sem fylgja mun eftir meistaraverki Oxford-drengjanna í Radiohead. Tónlistarunnendur hafa og fylgst grannt með aðdragandanum og gleypt í sig nýjar fregnir af væntanlegum grip, þ.e.

FÁRRA breiðskífna hefur verið beðið af viðlíka eftirvæntingu og þeirrar sem fylgja mun eftir meistaraverki Oxford-drengjanna í Radiohead. Tónlistarunnendur hafa og fylgst grannt með aðdragandanum og gleypt í sig nýjar fregnir af væntanlegum grip, þ.e. í gegnum afar upplýsandi og persónulega netsíðu sveitarmanna sjálfra. Nú fer biðin langa senn að renna sitt skeið á enda. Formlegur útgáfudagur á nýrri Radiohead-plötu sem fengið hefur titilinn Kid A er mánudaginn næsti, 2. október. Að sögn útgefenda mun skífan að sjálfsögðu verða fáanleg í hljómplötuverslunum hér á landi strax á mánudagsmorguninn. Það sem meira er, þá munu þeir sem hafa hraðan á eiga kost á því að kaupa sér sérstaka viðhafnarútgáfu af disknum. Útgáfa sú er gefin út í afar takmörkuðu upplagi um heim allan og inniheldur veglegan 12 blaðsíðna bækling með textaglefsum og skemmtilegum skissum í anda kápunnar á Kid A. Sveitarmenn ákváðu að gefa ekki út neina smáskífu af plötunni, eins og hefð hefur verið fyrir um langt skeið. Hvort þeir hafi verið að horfa til fyrirmynda sinna Pink Floyd og Led Zeppelin í þeim efnum skal ekki sagt til um en þær sveitir gerðu einmitt lítið sem ekkert af því að gefa út smáskífur - útgefendum sínum til mikillar mæðu.

Þess má geta í framhjáhlaupi að svo virðist sem stutt sé í næstu jól hjá unnendum sveitarinnar því hún hefur gefið út þá yfirlýsingu að á milli tónleikahalds þá vinni hún nú hörðum höndum að því að smíða saman næstu plötu sem jafnvel kann að koma út strax næsta vor.