Arthúr Björgvin Bollason, forstöðumaður Sögusetursins á Hvolsvelli.
Arthúr Björgvin Bollason, forstöðumaður Sögusetursins á Hvolsvelli.
ÞAÐ stefnir í að gestir Sögusetursins á Hvolsvelli verði 12.000 í ár sem er tólfföld aukning frá árinu á undan þegar 1.000 manns sóttu það heim. Að sögn Arthúrs Björgvins Bollasonar, forstöðumanns setursins, eru skýringar fjölgunarinnar m.a.

ÞAÐ stefnir í að gestir Sögusetursins á Hvolsvelli verði 12.000 í ár sem er tólfföld aukning frá árinu á undan þegar 1.000 manns sóttu það heim. Að sögn Arthúrs Björgvins Bollasonar, forstöðumanns setursins, eru skýringar fjölgunarinnar m.a. söguveislur setursins sem hófust í vor og hafa notið slíkra vinsælda að enn er boðið upp á þær þrátt fyrir að upphaflega hafi eingöngu staðið til að þær yrðu til loka ágúst. "Við gátum ekki hætt, eftirspurnin var það mikil og munum við bjóða upp á söguveisluna fram undir jól."

Aukin umsvif í undirbúningi

Arthúr segir það mikið vera starfsmannafélög sem sækja í söguveisluna sem hefst með ferð á Njáluslóðir en lýkur í veislu í sögusetrinu þar sem m.a. er borið á borð eldsteikt lamb og fluttur leikþáttur. "Fyrir utan söguveisluna höfum við svo verið að taka við hópum í miðri viku í skoðunarferðir á Njáluslóðir auk þess sem ferðamenn koma hingað til að skoða sýninguna í setrinu. Núna fara líka skólakrakkar að koma."

Arthúr segir gesti setursins einkum vera Íslendinga sem bendi til þess að menningararfur Íslendinga sé ónýtt auðlind. Arthúr segir að sögusetrið hafi ekki haft bolmagn til að sinna öllum þeim sem sýnt hafa áhuga á því að koma í söguveislur og ferðir, en á stefnuskránni sé að auka umsvif sögusetursins. "Undirbúningur að dagskrá fyrir erlenda ferðamenn er þegar hafinn og við höfum sett okkur í samband við ferðaskrifstofur sem sýnt hafa þessu mikinn áhuga."

Arthúr segir að til þess að hægt verði að færa út kvíarnar þurfi aukið fjármagn en sögusetrið er nú rekið að mestu leyti fyrir fjármagn frá sex hreppum í Rangárþingi. "Það eru ýmsar þreifingar í gangi og fjárfestar að skoða málið. Við vorum á fjárlögum síðasta árs og fáum vonandi áfram framlag úr ríkissjóði."

Arthúr segir að í kjölfar velgengni sögusetursins hafi fólk á ýmsum stöðum af landinu haft samband við sig, til að leita ráða, áhuginn á menningartengdri ferðamennsku sé greinilega mikill. "Það má líka segja að þessi starfsemi hafi margfeldisáhrif, því fyrir utan að veita vinnu sækja ferðamenn sem hingað koma sér þjónustu hér."