Síðasta kvikmynd Lars von Triers, Myrkradansarinn, hefur vakið mikla og raunar verðskuldaða athygli þó að sitt sýnist hverjum, eins og oft vill verða um nýstárleg listaverk.

Síðasta kvikmynd Lars von Triers, Myrkradansarinn, hefur vakið mikla og raunar verðskuldaða athygli þó að sitt sýnist hverjum, eins og oft vill verða um nýstárleg listaverk. Þessi nýja mynd hefði ekki kallað á sérstaka athygli hér heima nema fyrir þær sakir að Björk leikur aðalhlutverkið, og heldur raunar myndinni uppi, ef svo mætti segja. Hún er samt ekki þeirrar skoðunar að ástæða sé til fyrir hana að hætta óvenjulegum og glæstum tónlistarferli og taka upp þráðinn á nýjum vettvangi, þ.e. kvikmyndaleik. Hún sagði í samtali við Morgunblaðið að hún hefði heillazt af persónu ungu konunnar í myndinni, Selmu, og af þeim sökum hefði hún gert þá undantekningu að taka að sér hlutverk hennar. Hún hefði gert sér grein fyrir því þegar hún fékk aðalhlutverkið í íslenzku sjónvarpsmyndinni Glerbrot að kvikmyndaleikur hentaði henni ekki, en mörgum er leikur hennar þar þó í fersku minni og má raunar segja að hún hafi haldið áfram í Myrkradansaranum þar sem frá var horfið, tvíefld að þroska, áræði og reynslu. En hvort sem Björk verður sannspá um framtíð sína eða ekki, hvort sem hún heldur eitthvað áfram á leiklistarbrautinni og í kvikmyndagerð er augljóst, að með leik sínum í Myrkradansaranum hefur hún markað spor í leiklistarsöguna, ekki einungis hér heima heldur á alþjóðavettvangi. Leikur hennar hefur verið til umfjöllunar bæði austan hafs og vestan og hafa flestir hallazt að því að Björk hafi sett svo sterkan svip á myndina að framlag hennar ráði úrslitum og geri hana óvenjulega. Björk leikur persónu sína af miklum tilfinningahita og barnslegri innlifun, en konan er þó ekkert barn, heldur einstæð móðir, sem er staðráðin í því að tryggja syni sínum eins bjarta framtíð og hægt er. Björk skilar þessu móðurhlutverki með afbrigðum vel, leikur sitt hlutverk í myndinni af hógværu öryggi og sterkri innlifun, en þó fyrst og síðast af óvenjulegum tilfinningakrafti sem endist til loka. Þegar hún er einhvers staðar á næstu grösum er myndinni borgið. Það er að sjálfsögðu mikið afrek og hlýtur að kalla á mikið uppgjör eða sálarstríð, áður en Björk tekur þá endanlegu ákvörðun að gera undantekninguna að aðalreglunni; þ.e. að leika ekki oftar í kvikmynd. En líf hennar er nú þegar orðið svo ævintýralegt, hæfileikar hennar hafa komizt svo rækilega til skila og frægð hennar svo mikil úti í hinum stóra heimi, að enginn vegur er til þess að fólk staldri endanlega við fullyrðingu hennar um undantekninguna. Það þarf ekki mikinn spámann til að láta sér detta í hug að hér geti orðið upphaf að nýjum ferli. Raunar má fullyrða að Björk hefur með kvikmyndaleik sínum leyst eitthvað úr læðingi í þessari vinsælustu listgrein samtíðarinnar, kvikmyndagerð. Hún er ótvírætt brautryðjandi í nýrri tjáningu, nýrri upplifun á hvíta tjaldinu. Líklegast er að það verði viðurkennt með tíð og tíma. Í þessari sérstæðu tímamótamynd er tónlistin gríðarlega mikilvægur þáttur og í þeim efnum fer ekki milli mála, hver höfundurinn er. Tónlist Bjarkar í kvikmyndinni er bæði viðfelldin og eftirminnileg. Enginn vafi leikur á því að hún á eftir að ná til mun eldra fólks en þeirrar ungu kynslóðar sem Björk hefur einkum átt erindi við hingað til. Því ber ekki sízt að fagna.

Það sem er einna merkilegast við þessa nýjustu kvikmynd Lars von Triers er, fyrir utan leik Bjarkar, hvernig höfundurinn tvinnar veruleikann í umhverfi ungu konunnar inn í drauma hennar með söngvum og dönsum. Það er í senn sannfærandi, eðlilegt og áhrifamikið, hvað sem öðru efni myndarinnar líður, en án þessara atriða væri það ekki jafn áhrifamikið og raun ber vitni.

Mörgum mun áreiðanlega þykja höfundur myndarinnar djarfari undir lokin en nauðsyn krefur. Það er eins og hann sé með sítrónu í hendinni, kreisti hana til hins ýtrasta unz ekkert er eftir nema börkurinn einn. Um þessi lok má deila, en þau gleymast ekki. Og í sumum þessara atriða undir lokin rís leikur Bjarkar hæst. Og þar er kvikmyndin átakanlegust.

Á blaðamannafundi sem haldinn var í New York til kynningar á Myrkradansaranum var Björk m.a. spurð um Ísland og áhrif þess á hana sem listamann. Hún benti á að menningararfurinn hefði mikil áhrif á okkur sem þjóð og einstaklinga og hún hélt áfram - og er það ekki sízt mikils um vert: Mikil áherzla væri lögð á að veita góða menntun og viðhalda tungumálinu. Eins væri listalífið í miklum blóma og mikið af hæfileikaríku fólki byggi á Íslandi. Eða - eins og Björk orðaði það: "Ég fyllist heimþrá þegar ég tala um landið mitt." Það er þessi heimþrá sem hefur verið mörgum íslenzkum listamönnum bezta veganestið á framabraut þeirra úti í hinum stóra heimi.