Samningar um byggingu og rekstur Blönduvirkjunar voru undirritaðir 11. ágúst 1982. Landsvirkjun og iðnaðarráðherra deila nú fyrir dómi um ákvæði samningsins sem kveður m.a. á um greiðslur vegna vatnsréttinda í almenningum og afréttarlöndum.
Samningar um byggingu og rekstur Blönduvirkjunar voru undirritaðir 11. ágúst 1982. Landsvirkjun og iðnaðarráðherra deila nú fyrir dómi um ákvæði samningsins sem kveður m.a. á um greiðslur vegna vatnsréttinda í almenningum og afréttarlöndum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Iðnaðarráðherra fyrir hönd ríkisins og Landsvirkjun takast nú á um það fyrir dómi hvort fyrirtækinu beri að greiða ríkissjóði fyrir vatnsréttindi á almenningum og afréttarlöndum heiðanna á vatnasvæði Blöndu.

Iðnaðarráðherra fyrir hönd ríkisins og Landsvirkjun takast nú á um það fyrir dómi hvort fyrirtækinu beri að greiða ríkissjóði fyrir vatnsréttindi á almenningum og afréttarlöndum heiðanna á vatnasvæði Blöndu. Landsvirkjun heldur því fram að ríkið hafi ekki sýnt fram á eignarrétt sinn á heiðunum og fyrirtækinu sé heimilt að nýta vatnsréttindin endurgjaldslaust. Lögmaður ráðherra heldur því fram að ríkið fari með umráð svæðanna í allsherjarréttarlegu tilliti og geti á þeirri forsendu ráðstafað vatnsréttindunum gegn gjaldi. Ómar Friðriksson kynnti sér málavexti.

VALGERÐUR Sverrisdóttir, iðnaðarráðherra, stefndi í vetur Landsvirkjun fyrir hönd ríkisins þar sem þess er krafist að viðurkenndur verði réttur ríkisins til að krefja Landsvirkjun um endurgjald vegna vatnsréttinda á Eyvindarstaða- og Auðkúluheiði. Aðalmeðferð málsins fór fram í héraðsdómi Reykjavíkur 11. september sl.

Í dómsmálinu er tekist á um það hvort Landsvirkjun beri að greiða ríkissjóði fyrir vatnsréttindi á almenningum og afréttarlöndum heiðanna, sem eru á vatnasvæði Blöndu. Tekið er fram í stefnunni að ekki felist formleg krafa í kröfugerð ríkisins um eignarréttarlegt tilkall til almenninga og afréttarlanda á vatnasvæði Blöndu, heldur sú krafa að ríkið fari með umráð svæðanna í allsherjarréttarlegu tilliti og geti á þeirri forsendu ráðstafað vatnsréttindum þess gegn gjaldi.

Ríkisvaldið styður dómkröfur sínar fyrst og fremst með því að með samningi frá 1982 hafi Landsvirkjun samþykkt að greiða ríkissjóði fyrir vatnsréttindi á heiðunum af landi sem væru undir umráðum ríkisins, hvort sem væri á eignarlöndum ríkisins eða á almenningum og afréttarlöndum.

Málsvörn Landsvirkjunar í þessu máli felst einkum í því að ríkið hafi ekki sýnt fram á eignarrétt sinn á heiðunum og hefur fyrirtækið því neitað að greiða ríkinu fyrir vatnsréttindin. Landsvirkjun fellst ekki á að í samningnum frá 1982 hafi fyrirtækið fallist á að greiða fyrir vatnsréttindi á svæðum þar sem ekki hafi verið sýnt fram á óskoraðan eignarrétt ríkisins. Ekkert bendi til þess að Landsvirkjun hafi samþykkt að greiða ríkinu meira en öðrum aðilum hefði borið í svipaðri aðstöðu.

Deilt um ákvæði virkjunarsamnings frá 1982

Ríkið og Landsvirkjun gerðu með sér samning um virkjunarmál, yfirtöku byggðalína o.fl. 11. ágúst 1982. Tók Landsvirkjun þá að sér að reisa og reka virkjun í Blöndu og tók við réttindum og skyldum virkjunaraðila skv. samningi við heimamenn frá og með 1. okt. 1982.

Í dómsmálinu er aðallega deilt um túlkun á fyrstu og annarri málsgrein þriðju greinar þessa samkomulags sem eru svohljóðandi: "Áður en rekstur hverrar virkjunar hefst skal gert samkomulag um greiðslur Landsvirkjunar til ríkissjóðs vegna þeirra vatnsréttinda sem eru í umráðum ríkisins, hvort sem er vegna lögbýla í eigu ríkisins, annarra eignarlanda eða vegna vatnsréttinda í almenningum og afréttarlöndum.

Landsvirkjun greiðir ríkissjóði fyrir slík virkjunarréttindi endurgjald sambærilegt því sem almennt er greitt vegna slíkra réttinda. Endurgjaldið má vera sem eingreiðsla eða í formi árlegs afgjalds."

Þar segir ennfremur að nái aðilar ekki samkomulagi um endurgjald fyrir virkjunarréttindi skuldbindi þeir sig til að hlíta mati óvilhallra matsmanna.

Segir eignarrétt ríkis á svæðinu ósannaðan

Skarphéðinn Þórisson hrl. fer með málið fyrir hönd stefnanda og Hreinn Loftsson hrl. flytur málið fyrir hönd stefnda.

Í greinargerð með stefnu ríkisins segir að Landsvirkjun muni hafa greitt rétthöfum fyrir vatnsréttindi á grundvelli fyrirliggjandi samninga, þ.e. öllum öðrum en stefnanda, þ.e. ríkinu.

"Stefndi hefur neitað að inna af hendi greiðslur fyrir vatnsréttindi vegna almennings og afréttarlanda vatnasvæðis Blöndu og borið því við að eignarréttur stefnanda á svæðinu væri ósannaður. Þar við stendur og þess vegna er mál þetta nú höfðað og krefst stefnandi þess að viðurkenndur verði réttur hans til að krefja stefnda um endurgjald vegna vatnsréttinda fyrir almenning og afréttarlönd á vatnasvæði Blöndu en það eru þau svæði sem talin eru tilheyra Auðkúluheiði og Eyvindarstaðaheiði," segir í dómstefnunni.

Í stefnu iðnaðarráðherra eru dómkröfur ennfremur rökstuddar með eftirfarandi hætti: "Við nánari afmörkun sakarefnis í máli þessu telur stefnandi rétt að vekja athygli á því að í kröfugerð hans felst ekki formleg krafa um eignarréttarlegt tilkall til almenninga og afréttarlanda á vatnasvæði Blöndu. Í kröfugerðinni felst hins vegar sú krafa, að íslenska ríkið fari með umráð svæðanna í alsherjarréttarlegu tilliti og geti á þeirri forsendu ráðstafað vatnsréttindum þess gegn gjaldi. Jafnframt er vakin athygli réttarins á því að samkvæmt Hrd. 1997: 1162 og 1183 [dómar Hæstaréttar, innsk. Mbl.] er staðfest að ósannaður er fullkominn eignarréttur einstaklinga og kirkjunnar á landsvæðum þessum. Svæði þessi teljast því þjóðlendur í skilningi laga nr. 58/1998 um þjóðlendur o.fl. og samkvæmt 2. gr. þeirra laga er íslenska ríkið eigandi þeirra landa sem ekki eru háð einkaeignarrétti."

Vitnað í fundargerðir og Hæstaréttardóma

Í greinargerð lögmanns Landsvirkjunar er forsaga þessa máls og samningsgerðarinnar frá 1982 rakin í ítarlegu máli. Er m.a. vitnað til bréfaskipta og fundargerða vegna undirbúnings að samningsgerðinni 1982 um Blönduvirkjun o.fl. Þar kemur fram að mikil umræða fór fram um vatnsréttindi í almenningseign og endurgjald fyrir þau, og ennfremur að skiptar skoðanir voru um hvernig orða bæri umrætt ákvæði samningsins um vatnsréttindi og endurgjald fyrir þau. Í greinargerð stefnda er því m.a. haldið fram að samanburður á endanlegu orðalagi samningsákvæðisins og fyrri tillögum um orðlag leiði í ljós að horfið hafi verið frá upphaflegri hugmynd um að Landsvirkjun greiddi fyrir vatnsréttindi í almenningseign á sama hátt og fyrir þau vatnsréttindi sem væru eign ríkisins.

Einnig er fjallað um samkomulag Landsvirkjunar við landeigendur við Blöndu um yfirtöku réttinda vegna Blönduvirkjunar og eignardómsmál þau sem fram fóru þegar nokkrir hreppar austan og vestan Blöndu kröfuðst viðurkenningar fyrir dómi á rétti til fébóta frá Landsvirkjun vegna vatnsréttinda á Auðkúlu- og Eyvindarstaðaheiði. Vísar stefndi sérstaklega til dóma Hæstaréttar sem féllu árið 1997, en þar var Landsvirkjun sýknuð af kröfum hreppanna. Þannig hafi Hæstiréttur komist að eftirfarandi niðurstöðu í dómi vegna Auðkúluheiðar: "...ekki verður talið að sönnur hafi verið leiddar að því, að heiðin hafi nokkurn tíma verið undirorpin fullkomnum eignarrétti einstaklinga, kirkjunnar eða ríkisins, hvorki fyrir nám, með löggerningum eða öðrum hætti."

Í greinargerð stefnda þar sem fjallað er um hið umdeilda ákvæði samningsins frá 1982 segir ennfremur: "Með engu móti er unnt að fallast á það með stefnanda, að í tilvitnuðu ákvæði samningsins frá 11. ágúst 1982 felist skuldbinding af hálfu stefnda um greiðslu fyrir virkjunar- eða vatnsréttindi á eigendalausum svæðum. Slíkt hefði þurft að taka fram sérstaklega í samningnum þar sem um svo íþyngjandi og óvenjulegt ákvæði væri að ræða. Mun fremur verður að leggja þann skilning í orðalag ákvæðisins um "greiðslur Landsvirkjunar til ríkissjóðs vegna þeirra vatnsréttinda sem eru í umráðum ríkisins...", að stefndi greiði stefnanda fyrir réttindi á landsvæðum þar sem hann fer með eigandaumráð eða forræði. Ríkissjóður skuli í því tilliti jafnsettur gagnvart virkjunaraðilanum og aðrir landeigendur þar sem um beinan og óskoraðan eignarrétt ríkisins væri að ræða."

Lögmaður Landsvirkjunar vitnar jafnframt til svonefnds "Landmannaafréttarmáls hins síðara" en dómur féll í Hæstarétti í því máli 1981 (Hrd. 1981:1584). Komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu í því máli að réttur yfir landareign gæti verið takmarkaður án þess að ríkið ætti það, sem umfram væri, þannig að aðild ríkisins væri ekki fólgin í eignarrétti, heldur yfirráðarétti eða umráðarétti.

Segir þjóðlendulög ekki raska réttindum Landsvirkjunar

Þá hafnar stefndi algerlega því að gildistaka laga nr. 58 frá 1998 um þjóðlendur geti raskað þeim réttindum sem Landsvirkjun hafi öðlast og eignast fyrir lögtöku þeirra laga. Er því vísað á bug að stefnandi geti byggt samningsheimildir sínar skv. samningnum frá 1982 á þeirri forsendu að skv. ákvæðum þjóðlendulaga teljist ríkið eigandi lands og hvers konar landsréttinda og hlunninda á þjóðlendum, sem ekki eru háð einkaeignarrétti.