FYRSTA deild kvenna í handknattleik hófst í gærkvöldi og voru úrslit í samræmi við spá forráðamanna félaganna.

FYRSTA deild kvenna í handknattleik hófst í gærkvöldi og voru úrslit í samræmi við spá forráðamanna félaganna. Fram vann FH 27:25 í æsispennandi leiki í Safamýrinni, Stjarnan lagði Víkinga að velli 17:23 í Víkinni og á Akureyri áttu Haukastúlkur ekki í vandræðum með Þór/KA í 23:37 sigri. Bikarmeistarar Vals fengu að finna til tevatnsins að Hlíðarenda eftir 12:26 tap fyrir Gróttu/KR. Einum leik var frestað þegar ÍR-ingar komust ekki til Eyja vegna veðurs en sá leikur verður leikinn í kvöld. Nokkur haustbragur var í mörgum leikjanna og liðin greinilega misjafnlega undir atið búin en ágæt tilþrif sýna að unnendur kvennahandboltans þurfa ekki að örvænta í vetur.

Í Safamýrinni hófu gestirnir úr Kaplakrika leikinn af miklum krafti en það skilaði sér ekki nægilega vel á markatöfluna og þrátt fyrir grimma vörn skoruðu Framstúlkur úr fyrstu fimm sóknum sínum. Hafnfirðingar lögðu áherslu á að taka Marinu Zovevu stórskyttu úr umferð enda skoraði hún "aðeins" fjögur mörk, þar af tvö úr vítum, fyrir hlé en sóknarleikur Fram var nokkuð brokkgengur á meðan Marina var upptekin. Það kostaði hinsvegar nokkra orku og brottvísanir að halda henni fjarri því Dagný Skúladóttir, sem sá um að halda Marinu í skefjum fékk fljótlega tvær brottvísanir. Þrátt fyrir kraft í vörn FH var sóknarleikurinn lengi vel í molum en liðið náði sér þó á strik og tók forystu áður en flautað var til leikhlés.

Eftir hlé var sama uppi á teningnum framan af og aldrei skildi meira en eitt mark liðin að en eftir tíu mínútur dró til tíðinda. Þá hóf Hugrún Þorsteinsdóttir markvörður Fram að verja með tilþrifum og um leið tók Marina við sér, sleit sig úr gæslu og skoraði af kappi. Það skilaði fimm marka forystu, 25:20, þegar átta mínútur voru til leiksloka og ætla mætti að Framstúlkur héldu fengnum hlut, sérstaklega þar sem sóknarleikur gestanna úr Hafnarfirði var hrikalega slakur. Hinsvegar voru FH-stúlkur ekki búnar að syngja sitt síðasta því með miklum dugnaði ásamt góðri markvörslu Kristínar Maríu Guðjónsdóttur náðu þær að minnka muninn í eitt mark, 25:24, og síðan 26:25 en lengra komust þær ekki því Díana Guðjónsdóttir innsiglaði sigur Fram.

"Ég er afar ánægð með að fá þessi stig en þetta var alltof sveiflukennt hjá okkur þó að við slíku mætti búast í fyrsta leik," sagði Hugrún fyrirliði og markvörður Fram. "Helst fannst mér vanta skynsemi í sóknarleik okkar, sérstaklega áttum við að halda okkar striki í lokin þegar við vorum komin með gott forskot en þá kom fum og FH-stúlkur voru ótrúlega snöggar fram," bætti fyrirliðinn við og telur að spáin fyrir deildina, þar sem Fram er spáð þriðja sæti deildarinnar, sé ekki fjarri lagi. "Þessi spá sýnir að við eigum heima í efri hluta deildarinnar enda finnst okkur það sjálfum." Hugrún, Marina, Díana og Katrín Tómasdóttir voru bestar hjá Fram.

Upplitið var ekki alveg eins gott hjá FH-stúlkum. "Þetta var ekki nógu gott hjá okkur þótt sumt hafi gengið ágætlega," sagði Gunnur Sveinsdóttir, sem var markahæst hjá FH með átta mörk. "Vörnin var ekki góð og ekki heldur sóknarleikurinn sem þarf að fínpússa en við höfum spilað alltof lítið saman," bætti Gunnur við og taldi spá forráðamanna um að FH hafnaði í þriðja neðsta sæti deildarinnar ekki koma sér illa. "Okkur brá nokkuð að sjá spána en það getur haft sínar góðu hliðar því við getum sýnt að við getum betur og hrakið þessa spá." Jolanta Slapikiene átti stórleik milli stanganna hjá FH og varði 18 skot en Gunnur, Judit Esztergal og Harpa Dögg Vífilsdóttir voru góðar.

Stjörnusigur í Víkinni

Hart var barist í gær þegar Víkingsstúlkur tóku á móti Stjörnunni í 1. umferð fyrstu deildar kvenna í handbolta og leikurinn byrjaði ágætlega þar sem bæði lið virtust þróttmikil og ákveðin. Liðin spiluðu svipaða vörn þar sem allir leikmenn lágu í flatri 6:0 vörn, þó breyttu Stjörnustúlkur um vörn eftir slakan kafla beggja liða og kom það þeim að góðum notum þar sem þær skoruðu þrjú mörk á stuttum kafla. Í seinni hluta fyrrihálfleiks var mikið um mistök beggja liða og má áætla að það sé vegna þess að bæði lið eru með marga nýja leikmenn og ekki í mikilli leikæfingu saman. Stjörnustúlkur voru sterkari allan fyrri hálfleikinn og náðu Víkingsstúlkur aldrei að jafna og voru hálfleikstölur 8:10.

Víkingsstúlkur mættu grimmar í síðari hálfleik en náðu þó aldrei að yfirstíga forskot Stjörnustúlkna sem var orðið of mikið. Eftir mikla baráttu Víkingsstúlkna fóru Stjörnustúlkur með sigur af hólmi, en leiknum lauk með 17:23 sigri Garðbæinga. Dómarar leiksins, þeir Guðjón Sigurðsson og Ólafur Haraldsson voru sanngjarnir, en þó vantaði aðeins að samræma dómgæsluna á kafla. Hinsvegar var mikil stemmning í Víkinni í gærkvöldi og mættu u.þ.b. 80 manns og létu vel í sér heyra á þessum fyrsta leik fyrstu deildar kvenna - vonandi að stuðningurinn haldi áfram og skapi skemmtilega umgjörð hjá stúlkunum.

Liana markvörður Stjörnunnar varði mjög vel og var Nína Kristín Björnsdóttir einnig öflug en hún skoraði sex mörk fyrir sitt lið. Heiðrún Guðmundsdóttir og Guðmunda Ósk Kristjánsdóttir voru bestu leikmenn Víkings og skoruðu 4 mörk hvor.

Bikarmeistarar Vals fengu skell

Bikarmeistarar Vals fengu harða útreið þegar Grótta/KR sótti þær heim að Hlíðarenda í gærkvöldi og sigruðu 12:26. Gestirnir byrjuðu af krafti, höfðu yfir, 5:12, í leikhléi og fylgdu því svo eftir í síðari hálfleik og kaffærðu bikarmeistarana.

"Þetta er ekki heimsendir," sagði Eivor Pála Blöndal, fyrirliði Vals eftir leikinn. "Þetta var bara byrjunin og við eigum eftir að fóta okkur því við erum með svo til nýtt lið en það mun smella saman og við erum ekki smeykar við framhaldið. Það gekk lítið upp hjá okkur í sóknarleiknum en vörnin var ágæt."

Öruggt hjá Haukum á Akureyri

Á Akureyri stóð sameinað lið Þórs og KA í stórræðum þegar Haukar komu í heimsókn og þeim dugði ekki að skora 23 mörk því Hafnfirðingar gerðu 37.

"Ég get ekki annað en hrósað stúlkunum en úrslitin voru eins og mátti búast við því það er mjög mikill munur á liðunum," sagði Hlynur Jóhannsson þjálfari Þórs/KA eftir leikinn. "Við tefldum nánast fram unglingaliði því við höfum misst fimm leikmenn úr byrjunarliðinu frá því í fyrra en í staðinn höfum við fengið góðan liðsstyrk í ungum stúlkum frá Húsavík. Við erum að leita að meiri liðsstyrk og þá helst erlendis frá en sjáum hvað setur."

Stefán Stefánsson skrifar