Leikstjórn: Paul Verhoeven. Handrit: Gary Scott Thompson og Andrew W. Marlowe. Tónlist: Jerry Goldsmith. Aðalhlutverk: Kevin Bacon, Elisabeth Shue, Josh Brolin, Kim Dickens, Greg Grunberg, Joey Slotnick og William Devane. Columbia. 2000.

NÝJASTI spennutryllir Paul Verhoevens, Huldumaðurinn eða "Hollow Man", fjallar um vísindamann, ekki beint brjálaðan en ofvirkan sannarlega sem getur gert sig ósýnilegan. Hann heitir Sebastian Caine og hefur gert tilraunir á dýrum hingað til en núna langar hann að prófa efnið á sjálfum sér og púff, hann verður ósýnilegur á andartaki. Við það breytist nokkuð eðli hans og hann verður þessi brjálaði vísindamaður sem í honum leyndist. Hann gerist frakkur mjög í kvennamálum, við sjáum það í fyrsta atriðinu að það blundar í honum gægjufíkn og áður en lýkur gerist hann morðóður í þokkabót.

Verhoeven gerði áður "Basic Instinct" og "Showgirls" svo það kemur ekkert sérstaklega á óvart þótt það fyrsta sem vísindamaðurinn gerir eftir að hafa öðlast ósýnileika er að káfa á brjóstunum á aðstoðarkonu sinni á meðan hún lúrir. Enn eitt mikilvægt spor stigið fyrir mannkynið þar, býst ég við. Það sem Verhoeven ætlar sér að gera, en fer óþarflega klaufalega að, er að fjalla um hvaða áhrif það hefur á mann eins og Sebastian að geta gert það sem hann vill án þess að nokkur sjái til hans. Það er ótrúlegt hvað maður getur gert þegar maður þarf ekki lengur að líta framan í sig í spegli, segir vísindamaðurinn á einum stað.

Úr þessari athugasemd reynir Verhoeven sem sé að vinna en það gengur treglega. Ósýnileikinn virðist helst tengjast kynhormónum því vísindamaðurinn getur hreinlega ekki séð kvenfólk í friði. Loks hleypur í hann mikilmennskubrjálæði og hann verður svona skrýmsli eins og í Tortímandanum sem neitar að deyja.

Svo Huldumaðurinn verður fljótlega spennutryllir án nokkurs raunverulegs innihalds og hin mikla breyting á Sebastian úr valmenni í ómenni verður aldrei sannfærandi. Myndin virkar í sjálfu sér ekki illa sem dellutryllir. Tæknibrellurnar eru mjög skemmtilegar því hugmyndin er að sýna nákvæmlega hvað gerist taug fyrir taug þegar vísindamaðurinn verður ósýnilegur. Og þegar hann er orðinn ósýnilegur finna handritshöfundarnir margar góðar aðferðir til þess að gera sér mat úr því.

Kevin Bacon er ágætlega brattur í hlutverki vísindamannsins og Elisabeth Shue er fín sem kvenhetjan er gengur harðast fram í því að bjarga málunum. Aðrir leikarar eru að mestu fóður fyrir Sebastian eftir að hann hefur tapað sér.

Það hefði mátt vinna mun betur úr þeirri hugmynd sem farið var af stað með en fyrst það var ekki gert er eins gott bara að halla sér aftur og láta hamaganginn skemmta sér.

Arnaldur Indriðason