HALLI á rekstri Landspítala - Háskólasjúkrahúss nam 287 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins og að sögn Önnu Lilju Gunnarsdóttur, framkvæmdastjóra fjárreiðna og upplýsinga hjá Landspítalanum, eru helstu ástæður þess að kostnaður á þeim deildum sem...

HALLI á rekstri Landspítala - Háskólasjúkrahúss nam 287 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins og að sögn Önnu Lilju Gunnarsdóttur, framkvæmdastjóra fjárreiðna og upplýsinga hjá Landspítalanum, eru helstu ástæður þess að kostnaður á þeim deildum sem sinna bráðaþjónustu hefur verið hærri en gert var ráð fyrir, lyfjakostnaður hefur hækkað og einnig hefur almennur rekstrarkostnaður hækkað vegna verðbólgu. Hún segir að þegar þeir þættir sem ekki var gert ráð fyrir á fjárhagsáætlun séu framreiknaðir út árið megi gera ráð fyrir því að hallinn á öllu árinu verði rúmlega 400 milljónir króna.

Anna Lilja segir að búið sé að gera nákvæman samanburð á fjárhagsáætlun Landspítalans fyrir árið 2000 og uppgjöri fyrir fyrstu sex mánuði ársins, þar sem helstu frávik frá fjárhagsáætlun hafi verið greind. Þetta hafi verið gert í samráði við yfirmenn sviða á sjúkrahúsunum við Hringbraut og í Fossvogi. Anna Lilja segir að frávik frá áætlun hafi helst verið að finna á þeim deildum sem sinna bráðaþjónustu.

"Slysaaldan í ár hefur valdið miklu álagi, sérstaklega á bráðadeildir. Það er að segja gjörgæsluna, slysadeildina og legudeildirnar. Þarna hefur verið meira álag en gert var ráð fyrir."

Kostnaður vegna lyfja hefur hækkað um 11,3%

Anna Lilja segir að lyfjakostnaður hafi hækkað um 11,3% frá því á sama tíma í fyrra og það eitt valdi um 50 milljóna króna fráviki frá fjárhagsáætlun. Hún segir að það megi að hluta til skýra með því að kostnaður við ný og dýr lyf og tilkynningaskyld lyf hafi verið færður frá Tryggingastofnun til spítalans, án þess að fjárveiting fylgdi með. Þetta eigi eftir að leiðrétta og segir hún að viðræður um það standi nú yfir við heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið.

Hún segir að auk þess hafi almennt verðlag hækkað meira en gert hafi verið ráð fyrir í fjárlögum, eða um 5,5% í stað 3%, en það leiði til þess að útgjöld vegna rekstrarvara hækki töluvert. Hún segir að fyrir hvert prósentustig sem almennt verðlag hækki, hækki útgjöld spítalans um 50 til 60 milljónir króna.

"Þannig að ef við skoðum muninn milli 3% og 5,5%, er um 130 milljónir að ræða og við erum líka í viðræðum við ráðuneytið um að þetta verði leiðrétt," segir Anna Lilja. Hún segir að ýmsar launaleiðréttingar hafi þar að auki verið gerðar um mitt árið, til dæmis hjá sjúkraliðum.

Með leiðréttingum og sparnaði stendur reksturinn undir sér

Anna Lilja segir að viðræður standi yfir við ráðuneytið um leiðréttingu vegna áðurnefndra þátta, en hún segir að aukinn kostnaður vegna þeirra nemi um 330 milljónum króna.

"Ef þetta verður leiðrétt og aðgerðir okkar til sparnaðar duga, eigum við að ná rekstrinum ekki langt frá núllinu," segir Anna Lilja.

Hún segir að sparnaðaraðgerðir við spítalana felist meðal annars í því að viðhaldi hafi verið seinkað, sem og opnun legudeildar í Fossvogi, eftir viðhaldsframkvæmdir. Einnig hafi starfsemi legudeilda við Hringbraut verið endurskipulögð þannig að starfsemi göngu- og dagdeilda hafi aukist, ásamt því sem dregið hafi verið úr starfsemi barnadeildarinnar í Fossvogi um helgar.