Þóra Sæunn  Úlfsdóttir
Þóra Sæunn Úlfsdóttir
Verið er að búa til forrit, segir Þóra Sæunn Úlfsdóttir, sem gerir Netið aðgengilegt fyrir málstolssjúklinga.

MÁLSTOL er það kallað þegar einstaklingur á erfitt með að tjá sig vegna sjúkdóms eða heilaskaða. Viðkomandi getur átt í erfiðleikum með að tala, skrifa og lesa og hann getur líka átt erfitt með að skilja og túlka það sem aðrir segja. Áfall í heila sem veldur málstoli getur líka breytt getu manna til að takast á við lífið á sama hátt og það gerði áður. Það getur verið lamað og átt erfitt með sjón eða aðra skynjun. Á Íslandi fá um 500 manns heilablóðfall á ári. Áætlað er að 100 einstaklingar verði málstola vegna heilablóðfalls árlega og að 300 Íslendingar séu málstola á hverjum tíma.

Upplýsingatæknin verður alltaf stærri og stærri hluti af lífi okkar. Fólk nýtir sér tölvutæknina í auknum mæli og samskipti hversdagsins eru að flytjast yfir á veraldarvefinn.

Verið er að búa til forrit sem gerir netið aðgengilegt fyrir málstolssjúklinga. Forritið er hannað þannig að ekki þarf að nota annars konar búnað en vanalegur er við notkun Netsins. Forritið skiptist í tvo hluta: veraldarvefinn og póstforrit. Í þróun forritsins hefur verið haft að leiðarljósi að aldrei sé um marga möguleika að ræða (oftast bara tvo) og að sjaldan þurfi að skruna áfram til að sjá það sem í boði er.

Frá veraldarvefnum er hægt að búa til umhverfi sem miðast við getu málstola einstaklings. Þannig er hægt að aðlaga alla flýtihnappa eftir þörfum einstaklingsins t.d. hvort hann þurfi að heyra hvað ákveðinn flýtihnappur gerir: sjá mynd af honum, sjá mynd sem hreyfist eða lesa hvað hnappurinn gerir. Talmeinafræðingur metur í samvinnu við notandann hvaða hjálpartæki hann þarf til að nýta sér flýtihnappana sem best. Talmeinafræðingurinn getur sett upp vinnusvæði notandans í eigin tölvu og sent honum þau án sérstakrar aðstoðar frá tölvufræðingum. Hægt er að tengja þær heimasíður sem einstaklingurinn hefur mikinn áhuga á við ákveðinn hnapp. Þær eru settar í möppu og geymdar undir ákveðnu orði eða tákni. Notandinn getur þá opnað þær síður sem tengjast áhugamálum hans án frekari aðstoðar.

Póstforritið gefur möguleika á að senda bréf þannig að einstaklingurinn þarf bara að ýta á mynd af þeim sem á að fá bréfið. Hann getur líka lesið nafn viðtakandans eða hlustað á nafn hans. Póstforritið getur geymt fyrirfram ákveðnar setningar ýmist sem táknmynd, orð eða hljóð. Þannig getur málstola einstaklingur sem getur ekki talað eða skrifað sent vini sínum eða börnum bréf þar sem hann t.d. býður í kaffi eða óskar eftir hjálp við að fara til læknis.

Forritið gefur mikla möguleika á að hjálpa málstola einstaklingum við að nota Netið. Í framtíðinni mun forritið einnig nýtast öðrum sem eiga erfitt með að lesa, skrifa og tala. Forritið verður ókeypis fyrir notendurna. Hægt er að fá upplýsingar um forritið á http://www.nuh.fi/ARNIT1.htm eða www.afasi.no.

Höfundur er talmeinafræðingur og starfar við Landspítala - háskólasjúkrahús og Talþjálfun Reykjavíkur.