SPÁNN og Kamerún munu mætast í úrslitaleik knattspyrnunnnar 30. október á Ólympíuleikvanginum í Sydney. Kamerún vann sigur á Chile á lokamínútunni í undanúrslitum og endaði þar með Ólympíudraum Chile. Chile sem hefur aldrei áður komist í úrslit á Ólympíuleikum leikur um bronsið við Bandaríkjamenn sem lutu lægra haldi fyrir Spáni 3:1 í hinum undanúrslitaleiknum.

Kamerún sigraði Chile mjög naumlega 2:1 þar sem Stephane Bre skoraði úrslitamarkið úr vítaspyrnu á lokamínútu leiksins. Er aðeins um 15 mínútur lifðu leiks tók Chile forystuna með sjálfsmarki Kamerúna. Kamerúnar jöfnuðu leikinn um tíu mínútum síðar. Patrick Mboma fiskaði síðan vítið sem tryggði Kamerúnum sigurinn.

Fyrri hálfleikur var slakur af hálfu beggja liða. Leikmenn Chile voru mun sprækari í síðari hálfleik og fengu fjölda tækifæra til að gera út um leikinn en hinn 16 ára gamli markvörður Kamerún, Carlos Kameni, varði nokkrum sinnum meistaralega.

"Þetta var góður leikur tveggja góðra liða sem bæði hafa leikið vel til þessa á leikunum," sagði Jean-Paul Akono þjálfari Kamerún eftir leikinn. "Leikurinn var opinn og skemmtilegur fyrir áhorfendur. Við höfum allan tímann stefnt að gullverðlaunum. Nígería opnaði leiðina fyrir fjórum árum með því að verða fyrsta Afríkuþjóðin til að vinna sigur á Ólympíuleikum og nú vonumst við til að feta í fótspor þeirra," sagði Kameni.

"Það var aðallega okkur að kenna að vinna ekki leikinn því við nýttum ekki þau fjölmörgu marktækifæri sem við fengum. Við gátum heldur ekki haldið forystunni. Kamerún var betra liðið," sagði Nelson Acosta þjálfari Chile sem náð hefur stórkostlegum árangri með liðið.

Öruggt hjá Spánverjum

Spánverjar unnu öruggan 3:1 sigur á Bandaríkjamönnum í hinum undanúrslitaleiknum. Spánn hafði algjöra yfirburði í fyrri hálfleik og skoraði tvö mörk. Þeir leyfðu Bandaríkjamönnum þó að komast inní leikinn með því að fá á sig vítaspyrnu sem Bandaríkjamenn skoruðu úr rétt fyrir lok hálfleiksins. Spánverjar gátu því ekki andað rólegar fyrr en Jose Mari skoraði þriðja mark þeirra aðeins fjórum mínútum fyrir leikslok.

Spánverjar unnu gullið á eftirminnilegan hátt á heimavelli á Ólympíuleikunum 1992 í Barcelona og munu nú reyna að endurtaka leikinn í Sydney. Þeir verða þó að leika án fyrirliðans Toni Velamazan sem fékk sitt annað gula spjald í tveimur leikjum og verður í leikbanni.