ÞÓR JÓNSSON skrifar 24.9.'00 hér í Bréf til blaðsins, undir yfirskriftinni "Tillitssamir fjölmiðlar", svar við gagnrýni Birnu Óskar Björnsdóttur um fréttaflutning af slysum.

ÞÓR JÓNSSON skrifar 24.9.'00 hér í Bréf til blaðsins, undir yfirskriftinni "Tillitssamir fjölmiðlar", svar við gagnrýni Birnu Óskar Björnsdóttur um fréttaflutning af slysum. Þar er fullyrðing sem stendur í undirrituðum: "Almenningur á skýlausan rétt á að fá eins nákvæmar upplýsingar og kostur er um málefni sem varðar hann jafnmiklu og umferðin á vegum úti." Ætla má af framhaldinu ("Venjan ... á hinn bóginn verið sú að ganga fremur skemmra ...") að fjölmiðlar gangi á þennan rétt.

Svo má skilja af framsetningunni að taumlausa nærmynd af slysi beri að sýna og lýsa en fjölmiðlar standi sig ekki í stykkinu vegna tillitssemi við aðstandendur.

Ég spyr: Hvar stendur þessi réttur? Hvaðan kemur hann? Hvað er hann víðtækur? Eða er þetta bara frasi? Ég bið blaðamenn að spyrja hins sama.

Ef það er réttur minn sem hluti almennings að fá að líta lemstrað fólk í kjölfar slysa afsegi ég mér hann. Hver er réttur þess sem slasast? Bara til umhugsunar tek ég öfgakennt dæmi: Ef ég hlutast sundur í umferðarslysi, á almenningur þar einhvern "skýlausan rétt" til að horfa á partana? Hvaða rétt hefðu partarnir? Þór og aðrir blaðamenn, vinsamlegast veltið þessu fyrir ykkur. Það er verið að svara alvarlegri gagnrýni með vísun til þessa réttar.

Klausan um skyldur við almenning er oft notuð til að réttlæta sorpblaðamennsku.

Annað: Ég vissi ekki að Sky væri marglofuð fréttastofa, alla vega ekki fyrir vandaðan flutning, ég þekki ekki með CNN en ég spyr, hver er háttur BBC sem sannarlega er virtur fjölmiðill? Við skulum ekki láta það rugla okkur þótt einhverjir ósiðir tíðkist annars staðar, við ættum að geta metið sjálfstætt.

BJARNI JÓNSSON,

fréttaneytandi,

Nönnustíg 12,

Hafnarfirði.

Frá Bjarna Jónssyni: