Agnar Þórðarson
Agnar Þórðarson
Í NÝÚTKOMINNI bók sem nefnist Í leiftri daganna tekur Agnar Þórðarson rithöfundur upp þráðinn frá bók sinni Í vagni tímans og heldur áfram að rekja minningar sínar af mönnum og málefnum.

Í NÝÚTKOMINNI bók sem nefnist Í leiftri daganna tekur Agnar Þórðarson rithöfundur upp þráðinn frá bók sinni Í vagni tímans og heldur áfram að rekja minningar sínar af mönnum og málefnum. Agnar hafði kynni af mönnum sem settu svip á menningarumræðu og listalíf nýliðinnar aldar og rekur þau kynni í bókinni. Þarna birtast myndir af þjóðkunnum Íslendingum lífs og liðnum og ýmsir stórmeistarar tala tæpitungulaust sínu máli á síðum bókarinnar svo sem Halldór Laxness, Vilmundur landlæknir, Kjarval og Sverrir Kristjánsson sagnfræðingur svo einhverjir séu nefndir af þeim sem við sögu koma. Auk vinnu sinnar á Landsbókasafninu starfaði Agnar meðal annars bæði fyrir sendiráð Bandaríkjanna og Sovétríkjanna sálugu svo augljóst er að slíkur maður hefur frá mörgu að segja. En hvernig lýsir Agnar bókinni, er hún ævisaga eða ef til vill menningarrýni?

,,Þetta eru eiginlega menningarminni," svarar Agnar Þórðarson. ,,Þetta er ekki bein ævisaga heldur menningarminni, aðallega úr bókmenntum, leiftur úr því umhverfi sem ég er í á hverjum stað, frá París og frá Rússlandi, Póllandi og Bandaríkjunum og fleiri stöðum sem ég hef dvalið á í áranna rás, til dæmis vegna starfa minna fyrir sendiráð bæði Sovétríkjanna og Bandaríkjanna hér heima. Eftir innrásina í Tékkóslóvakíu var erfitt fyrir Rússana að fá íslenskan starfsmann því þeir hurfu frá þeim en ég hafði lesið blöðin með fyrsta sovéska sendiherranum sem hér var, hann kom hingað um 1944 og ég las með honum blöðin og gaf honum skýrslu um sjálfstæðisbaráttuna. Þess vegna hafa þeir væntanlega haft augastað á því að fá mig til starfa aftur. Þarna starfaði ég frá '68 til '72 og var boðið í annað sinn til Sovétríkjanna 1970 í þakklætisskyni fyrir starfið og kom þá meðal annars til Armeníu og dvaldi um tíma í Moskvu. Þeir vissu það að ég var ekki hlynntur þeim í pólítík enda töluðum við ekkert um pólítík. Þeir vissu að ég hafði komið með Steini til Sovétríkjanna árið 1956 og skrifað um það og mótmælt kerfinu enda var ég mótfallinn því en ekki þjóðinni. Ég hafði mætur á Rússum og bókmenntum þeirra en það er allt annað mál og ekki pólitík. Og það mega þeir eiga Rússar að þeir eru vel að sér í bókmenntum og ávinningur af því að fræðast af þeim um Púskín, Tolstoj og fleiri skáld en nítjándualdarhöfundarnir skrifuðu eiginlega þeirra helstu bókmenntir fram á daga Gorkís."

Þannig að Í leiftri daganna er eins konar menningarsaga öðrum þræði?

,,Já, ég tala mikið um bókmenntir, Halldór Laxness og Vilmund Jónsson sem ég kynntist talsvert og ræddi mikið við. Ég kynntist Halldóri ekki náið en þó kom ég til hans á Gljúfrastein og ræddi við hann um bókmenntir. Halldór var mjög samsettur maður og næmur fyrir öllu mögulegu í kringum sig. Í pólitík var hann eindreginn vinstrisinni, mjög róttækur og fylgjandi Sovétríkjunum. Það var ekki fyrr en eftir 1956 sem hann fór að hugsa sig eitthvað um og síðar skrifar hann Skáldatíma þar sem hann gengur endanlega af trúnni. Halldór hafði ríka þörf fyrir trú og byrjaði sem kaþólikki og gerðist síðan kommúnisti og var það í ein þrjátíu ár en var undir lokin aftur farinn að snúast á sveif með kirkjunni. Það var Halldóri veigamikið þegar hann var ungur höfundur að hafa harðsnúinn flokk með sér sem studdi hann og þeir gerðu það strax, tóku hann upp á sína arma eftir að hann skrifaði Alþýðubókina og hann varð í kjölfar þess virkur mjög í pólitíkinni."

Voru þeir ólíkir menn hann og Steinn Steinarr?

,,Steinn var efasemdarmaður og efaðist um allt! Hann var róttækur þegar hann var ungur eins og margir aðrir, þar á meðal ég. En þegar við fórum í ferðina 1956 var hann alveg horfinn frá trúnni á kommúnismann og orðinn mjög heitur gegn þeim áður en yfir lauk. Hann sagði í viðtali við Helga Sæmundsson í Alþýðublaðinu: ,,Sovétríkin eru vonandi ekki það sem koma skal." Hann orti um hina bergmálslausu múra Kremlar. Þetta voru afar dapurlegir tímar. Menn sem hölluðust að ólíkum skoðunum töluðu ekki einu sinni saman, það var engin samræða á milli þeirra. Tómas Guðmundsson fékk þann stimpil að hann væri borgarlegt skáld og varð eiginlega fyrir aðkasti sem var ómaklegt því hann er eitt af okkar bestu skáldum."

En þú sjálfur hefur ekki heillast jafnmikið af pólitík og þeir Steinn og Halldór gerðu?

,,Ég hef eiginlega alltaf staðið utan stjórnmála og ekki tekið þátt í pólitík í rúma hálfa öld. Ég hef engan pólitískan lit orðið og er algjörlega fríþenkjandi en ég heyri á róttækum mönnum að ég sé borgarlegt skáld og ég læt mér það vel líka. Ég byggi á hefðbundum bókmenntum enskum og frönskum og tek þær mér til fyrirmyndar og hef ekki trú á tilraunum. Póstmódernimsi veit ég ekki hvað er - eða hver hann er! Ég velti því ekkert fyrir mér enda kemur mér þetta ekkert við. Ég bara fer mínu fram."

Hvað stendur eftir þegar þú lítur yfir farinn veg og áratuga starf í bókmenntum?

,,Það er sagan sjálf, hvað hún lifir. Það skiptir höfuðmáli að kunna að segja sögu, það er sígilt. Svo geta verið alls konar kúnstir inni á milli, í háskólanum er mikil þörf fyrir að fá efni handa stúdentum og þá leita kennararnir uppi höfunda sem eru skrýtnir, slá þeim upp og halda þeim fram eins og þetta sé eitthvað voða merkilegt. En það sem blífur er það að kunna að segja sögu og slíkar bækur lifa. Gömlu sagnameistararnir okkar lifa enn, Jón Trausti sem Halldór Laxness lærði mikið af og Gunnar Gunnarsson og síðan Halldór sjálfur. Þetta eru allt miklir sagnameistarar en ég fylgist ekki svo mikið með íslenskum nútímabókmenntum, þó þykir mér mikið til höfundar Tröllakirkju og fleiri skáldsagna, Ólafs Gunnarssonar, koma. Hann er góður höfundur. Minningabækurnar mínar eru tilraun til að skrifa brot af menningarsögunni eins og hún kemur mér fyrir sjónir. Ég hef þarna ýmislegt eftir merkum mönnum og er ekki lýsa þeim náið innan frá heldur einungis hlusta á það sem þeir hafa að segja og ég reyni að hafa það rétt eftir."

Gyðingurinn gangandi

Það var eitt sumar að þýskur gyðingur, Kalischer að nafni, bjó hjá okkur í Suðurgötu. Hann var fyrrverandi skólastjóri, sálfræðingur að mennt og áhugasamur frístundamálari, setti á léreft dramatískar myndir frá Þingvöllum. Hann unni útiveru og gönguferðum. Hann hafði flúið frá Þýskalandi til Bandaríkjanna þegar fór að hitna í kolunum á fjórða áratugnum. Hann var áhugasamur um íslenska málaralist og fékk mikið dálæti á Kjarval. Ég hafði kynnt hann fyrir Valtý Péturssyni listmálara, vini mínum, og þegar Kalischer rakst á Valtý á Hótel Borg og frétti að Kjarval væri þar staddur tókst hann á loft og Valtýr kynnti hann fyrir meistaranum. Kjarval spurði hvar hann byggi og þegar Kjarval heyrði að hann gisti hjá mér í Suðurgötu snaraði hann sér fram í eldhús á Borginni og kom að vörmu spori með pakka vafinn inn í gamalt Morgunblað og sagði honum að færa mér hann. Ég tók við þessari sendingu frá meistaranum dálítið undrandi og Kalischer var mjög spenntur að sjá hvað væri innan í pakkanum og kom þá í ljós rúgbrauðshleifur, tvær kleinur og harðfiskur. Kalischer varð gapandi af undrun, stórar fellingar mynduðust í kinnum hans og nefið varð enn mjórra og íbjúgara en venjulega en ég kannaðist við ýmis uppátæki meistarans og lét mér hvergi bregða. Kalischer spurði mig hvernig ætti að skilja þessa gjöf, hvort hún gæti verið eitthvað táknræn?

Seinna kom Kalischer með bréf sem hann hafði sent Kjarval á Hótel Borg en Kjarval hafði fengið honum bréfið aftur óopnað nokkrum dögum seinna og hafði hann skrifað tvö orð framan á umslagið, sem Kalischer var forvitinn að ráða í, en þar stóð stórum stöfum: Mér sýnt.

Þessi áritun minnti á kvittun foreldris í einkunnabók barns í barnaskóla. Ég sagði Kalischer að í þessu fælist nokkur viðurkenning en hann reyndi aftur seinna að komast í samband við meistarann en víst með litlum árangri. Kalischer kom nokkrum sinnum aftur til Íslands og sendi okkur seinna langa grein eftir sig um íslenska menningu þar sem okkar Kjarvals var lofsamlega getið, greinin var í þýsku blaði útgefnu í Zürich. Ég spurði Kjarval einu sinni um kynni þeirra Kalischers og Kjarval svaraði með einu orði: Herskár.

Að lokum lagði kona Kalischers blátt bann við Íslandsferðum sökum aldurs hans og bágrar heilsu.

Um nírætt orti hann hástemmdan brag um Ísland og sendi okkur með jólakveðju.