ARNE Erlendsen, þjálfari norska knattspyrnufélagsins Lilleström, sagði í gær að verðlag á norskum leikmönnum væri alltof hátt og þess vegna sneri hann sér til Íslands til að fá góða leikmenn á vægu verði.

ARNE Erlendsen, þjálfari norska knattspyrnufélagsins Lilleström, sagði í gær að verðlag á norskum leikmönnum væri alltof hátt og þess vegna sneri hann sér til Íslands til að fá góða leikmenn á vægu verði. Gylfi Einarsson úr Fylki samdi við Lilleström í fyrrakvöld og kaupverð hans hefur ekki verið gefið upp en talið er að það sé í kringum 25 milljónir króna.

"Við hjá Lilleström höfum ekki efni á að kaupa norska leikmenn og því snúum við okkur annað. Munurinn á okkur og Rosenborg er sá að þeir geta keypt leikmenn innanlands. Það er líka ómögulegt að halda góðum leikmönnum. Við urðum að selja Heiðar Helguson í fyrra og nú erum við að missa Rúnar Kristinsson," sagði Erlendsen við Nettavisen í gær.

Sagt er að Erlendsen sé með mjög góð sambönd á Íslandi og fari oft þangað til að skoða leikmenn. Um Gylfa segir hann:

"Gylfi er sóknartengiliður sem skorar mörk og er mikill vinnuhestur. Ég vænti mikils af honum, en hann þarf sinn tíma. Við kaupum alltaf leikmenn með framtíðina í huga."