Hópur stjórnarandstæðinga safnaðist saman í bænum Cacak í gær til að mótmæla úrslitum forsetakosninganna. Blésu menn í flautur og höfðu mótmælaspjöld á lofti.
Hópur stjórnarandstæðinga safnaðist saman í bænum Cacak í gær til að mótmæla úrslitum forsetakosninganna. Blésu menn í flautur og höfðu mótmælaspjöld á lofti.
VIJOSLAV Kostunica, frambjóðandi stjórnarandstöðunnar í forsetakosningunum sem fram fóru í Júgóslavíu á sunnudag, hafnaði því í gær alfarið að efnt yrði til annarrar umferðar forsetakosninga og sagði slíkt "móðgun" við kjósendur.

VIJOSLAV Kostunica, frambjóðandi stjórnarandstöðunnar í forsetakosningunum sem fram fóru í Júgóslavíu á sunnudag, hafnaði því í gær alfarið að efnt yrði til annarrar umferðar forsetakosninga og sagði slíkt "móðgun" við kjósendur. Yfirkjörstjórn Júgóslavíu hafði fyrr um daginn tilkynnt að Kostunica hefði hlotið fleiri atkvæði en Slobodan Milosevic Júgóslavíuforseti, en þar sem ekki væri um hreinan meirihluta að ræða yrði boðað til annarrar umferðar.

"Sósíalistarnir eru að reyna að kaupa aðra umferð fyrir Milosevic og slíku boði er hægt og verður að hafna," sagði í yfirlýsingu sem Kostunica sendi frá sér. "Hér er um pólitískt svindl og atkvæðaþjófnað að ræða."

Að sögn yfirkjörstjórnar, sem fyrst tjáði sig um úrslit kosninganna í gær, hlaut Kostunica 48,2% atkvæða en Milosevic 40,2%. Að mati Marko Blagojevic, talsmanns samtaka óháðra eftirlitsmanna á kjörstöðum (CESID), eru kjörtölur yfirkjörstjórnar "eintómur tilbúningur. Ég get ekki sagt hvaða gögn yfirkjörstjórnin notar en það er augljóst að þeir eru að reyna að afbaka kjörtölur," sagði Blagojevic.

Kosningabandalag 18 stjórnarandstöðuflokka (DOS), sem Kostunica er í framboði fyrir, hafði áður lýst yfir sigri er búið var að telja 97,5% atkvæða. Hafði DOS eftir eftirlitsmönnum á kjörstöðum að Kostunica hefði hlotið 54,66% atkvæða en Milosevic 35,01%. Þá sagði ríkissjónvarp Serbíu kjörsókn hafa verið 64% sem er ólíkt lægri tala en þau 74% sem stjórnarandstaðan segir hafa mætt á kjörstað.

"Það er engin ástæða, hvorki siðferðileg né pólitísk, til þess að við sættum okkur við að það sé troðið á vilja kjósenda," sagði Kostunica seint í gær. "Sigurinn er augljós og við munum verja hann jafnfriðsamlega og hægt er. Kjósendur eru búnir að hafna Milosevic og hans stefnumálum og okkar fyrsta skylda er að fylgja þeim dómi eftir."

Krafist fundar með kjörstjórn

Fyrr um kvöldið hafði Zoran Djindjic, leiðtogi eins stjórnarandstöðuflokksins, þá krafist þess að fundað yrði með yfirkjörstjórn og útreikningar og atkvæðaseðlar skoðaðir. "Við eigum hér í stríði við meiriháttar svindl og fölsun úrslita," sagði Djindjic og staðhæfði að ríkisstjórnin hefði haft 400.000 atkvæði af Kostunica og fært Milosevic helming þeirra. "Við vissum hverjar fyrirætlanir þeirra voru því það var augljóst að þeir voru að bralla eitthvað til að koma Milosevic a.m.k. í aðra umferð kosninganna. Við höfum hins vegar raunverulegar sannanir og munum verja vilja kjósenda."

Vladan Batic, leiðtogi annars stjórnarandstöðuflokks, hvatti stuðningsmenn Kostunica hins vegar til að halda ró sinni, en óttast hafði verið að til óeirða kæmi í Serbíu ef Milosevic lýsti sig sigurvegara eða boðaði aðra umferð forsetakosninganna. "Það verður engin önnur umferð fyrir okkur. Við unnum á heiðarlegan hátt og þeir sem fölsuðu úrslitin verða að sæta ákærum vegna þessa," hafði AP-fréttastofan eftir Batic.

Belgrad. Reuters, AFP, AP.