Vala á verðlaunapallinum ásamt Tatlana Grigorlevu frá Ástralíu, sem fékk silfur og gullstúlkunni bandarísku, Stacy Dragilu.
Vala á verðlaunapallinum ásamt Tatlana Grigorlevu frá Ástralíu, sem fékk silfur og gullstúlkunni bandarísku, Stacy Dragilu.
ÞAÐ var stefna okkar fyrir leikana og á leikunum að segja minna og reyna þess í stað að gera betur úti á vellinum, en ég hef hins vegar ekki leynt þeirri skoðun minni að innan frjálsíþróttaliðsins eru þrír keppendur sem eiga að geta verið á meðal þeirra...

ÞAÐ var stefna okkar fyrir leikana og á leikunum að segja minna og reyna þess í stað að gera betur úti á vellinum, en ég hef hins vegar ekki leynt þeirri skoðun minni að innan frjálsíþróttaliðsins eru þrír keppendur sem eiga að geta verið á meðal þeirra átta bestu í sínum greinum. Tveir keppendur hafa náð þessu marki, þar af er Vala með bronsverðlaun og ég er hreinlega í sjöunda himni yfir því," sagði Vésteinn Hafsteinsson, vekefnisstjóri og flokksstjóri frjálsíþróttamanna, en hann átti óvenju langan og erfiðan dag á mánudaginn.

Ég er ekki einatt ánægður fyrir hönd Völu með þetta stórkostlega afrek heldur einnig fyrir hönd íslenska liðsins í heild. Mér fannst Örn Arnarson sundmaður setja upp ákveðið dæmi og það hafði ég vonast til að hann gerði þar sem ég hef á honum mikla trú. Ástæðan fyrir því að við fórum í sameiginlegar æfingabúðir fyrir leikana var meðal annars sú að þannig myndu sundmennirnir og frjálsíþróttamennirnir kynnast. Síðan þegar Örn náði sínum frábæra árangri varð það til þess að frjálsíþróttamennirnir hugsuðu hærra, sáu að það var hægt að komast í allra fremstu röð, þannig má segja að Örn hafi gefið tóninn.

Ég hef fylgt Völu eftir í þrjú ár og það má segja að hún sé þannig gerð að henni líki alltaf vel á stórmótum, nær þá yfirleitt að laða það besta fram hjá sér. Núna sýndi hún það svo um munar á utanhússmóti. Ég samgleðst henni því innilega því ég veit vel hverslagt hörkutól hún er sem hefur gríðarlegt keppnisskap, auk þess að vera einstaklega góð stúlka.

Nú ert þú að taka þátt í þínum fimmtu leikum, hefur þér liðið betur en núna þegar Vala tók við bronsverðlaununum?

"Ég held ekki. Reyndar leið mér mjög vel þegar ég komst í úrslit í kringlukasti í Barcelona 1992. Alltaf þegar mér líður vel fæ ég gæsahúð, henni fylgir sælutilfinning. Það fór um mig sælustraumur nú yfir árangri Völu, ég er tilfinningamaður og verð að viðurkenna að ég varð klökkur á þessari stundu," segir Vésteinn og hlær við.

Með þessum verðlaunum sérð þú einnig árangur af þínu starfi sem verkefnisstjóri afrekshóps FRÍ, ekki satt?

"Um árangurinn verða aðrir að dæma en ég. Að minnsta kosti hef ég lagt mig fram um að halda þessum hópi saman og reyna að halda betur á málum gagnvart afreksfólkinu en áður hefur verið gert. Ég tel mig hafa miðlað af mikilli reynslu. Það sem mér finnst ánægjulegast við starfið er að finna stuðning frá íþróttamönnunum við mitt starf, þótt ég hafi byrjað á því með tvær hendur tómar fyrir þremur árum. Nú hefur ákveðinn grunnur verið lagður sem hægt er að byggja á. Við getum gert miklu betur í öllu þessu starfi, það er ljóst. Ég hef háleitar hugmyndir og miklar kröfur eftir að hafa lifað í heimi afreksíþrótta í 20 ár. Ég er mjög ánægður og um leið stoltur þegar árangurinn kemur fram með jafnglæsilegum hætti og endurspeglast í afreki Völu.

Ég er mjög stoltur af okkar árangri á leikunum, hvað sem Guðrún Arnardóttir og Jón Arnar Magnússon gera. Guðrún getur nú þegar verið mjög sátt við sinn árangur nú þegar. Þá er ég stoltur af mínum manni, Magnúsi Aroni Hallgrímssyni. Þótt ekki hafi allt gengið að óskum hjá Þóreyju Eddu Elísdóttur og Mörthu Ernstsdóttur að þessu sinni þá er ekkert við því að segja. Við erum með fámennan hóp á leikunum og það tekst ekki öllum að komast í fremstu röð, enda ekki hægt að búast við því."

Um stundina þegar Vala stóð á verðlaunapallinum segir Vésteinn; "Þetta er að sjálfsögðu stærsta stund sem ég hef lifað, bæði sem þjálfari og verkefnisstjóri. Tilfinningunni er vart hægt að lýsa að sjá stúlkuna á verðlaunapalli og íslenska fánann dregin við. Ég hef einu sinni áður upplifað slíka stund þegar Bjarni Friðriksson vann bronsverðlaunin á leikunum í Los Angeles 1984.

Ekki má heldur gelyma því að ég hef á undanförnum árum fengið að taka þátt í hverju stórmótinu á fætur öðru þar sem Vala hefur staðið á verðlaunapalli. Þegar hún stökk síðan léttilega yfir hverja hæðina á fætur annarri í fyrrakvöld var ég farinn að velta því fyrir mér hvort hún yrði á palli, en um leið þorði ég vart að vona það. Um leið er ég ánægður fyrir hönd Stanislavs Szczyrba þjálfara Völu, hann hefur "búið hana til" ef svo má segja með því að kenna henni allt sem hún kann í stangarstökki og það er ekki lítið eins og við fengum að sjá á mánudaginn.

Völu hefur vegnað upp og ofan síðustu tvö ár eftir að hún setti í tvígang heimsmet innanhúss, aðeins tvítug að aldri. Það eru eflaust ekki margir sem gera sér grein fyrir því álagi sem því fylgir fyrir tvítuga stúlku. Þar af leiðandi eru kröfurnar gríðarlegar sem til hennar eru gerðar. Ég er því einfaldlega þakklátur fyrir að fá að taka þátt í þessu ævintýri. Verðlaunin eru Völu kærkomin og sannarlega ávöxtur ómælds erfiðis og gríðarlegrar hörku og elju sem hún hefur sýnt við æfingar síðustu ár," segir Vésteinn Hafsteinsson, verkefnisstjóri Sydneyhóps FRÍ.

Ívar Benediktsson skrifar frá Sydney