Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri og Svafa Grönfeldt frá Gallup skrifa undir samstarfssamninginn.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri og Svafa Grönfeldt frá Gallup skrifa undir samstarfssamninginn.
REYKJAVÍKURBORG og Gallup hafa ákveðið að standa í sameiningu að framkvæmd ESB-verkefnisins "Hið gullna jafnvægi" en verkefnið felur í sér að 25 fyrirtækjum í Reykjavík verður boðið að taka þátt í fræðslu- og þjálfunaráætlun sem miðar að því að...

REYKJAVÍKURBORG og Gallup hafa ákveðið að standa í sameiningu að framkvæmd ESB-verkefnisins "Hið gullna jafnvægi" en verkefnið felur í sér að 25 fyrirtækjum í Reykjavík verður boðið að taka þátt í fræðslu- og þjálfunaráætlun sem miðar að því að koma á auknum sveigjanleika í fyrirtækjum og finna hið gullna jafnvægi milli vinnu fólks og einkalífs þess. Samstarfssamningur var undirritaður í gær og þá kynntu fulltrúar Gallup jafnframt helstu niðurstöður nýrrar rannsóknar sem fyrirtækið hefur gert en þær sýna að sveigjanlegri vinnutilhögun er Íslendingum ofarlega í huga.

"Hið gullna jafnvægi" er liður í ESB-verkefninu "Striking the balance" en það fer fram í fjórum löndum samtímis, Bretlandi, Grikklandi, Þýskalandi og á Íslandi. Kom fram í máli Hildar Jónsdóttur, jafnréttisráðgjafa Reykjavíkurborgar, að tildrög þess að Reykjavík tekur þátt í verkefninu væru þau að boð hefði borist um það frá Lundúnasveitarfélaginu Kingston upon Thames.

Tuttugu og fimm fyrirtækjum eða stofnunum býðst að taka þátt í verkefninu og er öllum fyrirtækjum með starfsemi í Reykjavík frjálst að sækja um. Þátttökugjald er 150 þúsund kr. en fyrirtæki fá heimild til að nota merki verkefnisins í kynningarstarfi sínu. Áhersla verður lögð á fjölbreytilega samsetningu í valinu á þátttökufyrirtækjunum.

Sveigjanleiki ekki aðeins fyrir konur og barnafólk

Hildur lagði áherslu á að sveigjanleiki í starfi skipti alla á vinnumarkaðnum máli. "Fólk getur af alls konar ástæðum haft þörf fyrir sveigjanleika í starfi," sagði hún. "Sveigjanleiki í starfi er ekki bara fyrir konur og barnafólk. Fólk getur þarfnast sveigjanleika vegna annarra þátta eins og símenntunar eða félagslífs utan vinnustaðar."

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri tók undir þetta viðhorf. "Jafnréttispólitík er ekki fyrir neinn sérstakan hóp. Svona verkefni gagnast öllum. Fyrirtækin eru að hagnast á þátttöku en fórna ekki neinu," sagði hún. Kom fram í máli borgarstjóra að þær niðurstöður rannsókna Gallups, að karlar ekki síður en konur vilji hafa tækifæri til að vinna meira heima við, hefðu vakið athygli hennar.

Gallup mun kynna frekari niðurstöður rannsóknarinnar á upphafsráðstefnu verkefnisins "Hið gullna jafnvægi", 6. október næstkomandi. Svafa Grönfeldt, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Gallups, greindi hins vegar frá því í gær að rannsóknin staðfesti niðurstöður erlendra rannsókna þess efnis að fyrirtæki högnuðust margfalt á því ef starfsfólk teldi sig búa við sveigjanleika í vinnutilhögun. Starfsánægja væri meiri og sömuleiðis tryggð starfsfólksins við fyrirtækið, auk þess sem mjög drægi úr streitu hjá því og þeim neikvæðu áhrifum sem starfsálag getur haft á einkalíf starfsmanna.

Með þátttöku í verkefninu fá fyrirtæki m.a. hagnýtar leiðbeiningar um fyrstu skrefin til að auka starfsánægjuna á vinnustaðnum, leiðbeiningar um hvernig ná megi betri árangri við að ráða og halda hæfu starfsfólki og einnig öðlast þau þekkingu á breyttu lagaumhverfi á vinnumarkaði. Munu fyrirtækin sem taka þátt í verkefninu og íslenskir samstarfsaðilar fá aðgang að endanlegri gerð fræðsluefnis að verkefninu loknu.

"Þetta verkefni er mjög spennandi ef maður skoðar þróun á vinnumarkaði í Evrópu, og sérstaklega hér á Íslandi," sagði Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, stjórnunarráðgjafi hjá Gallup. "Við erum að sjá heilmiklar breytingar á vinnumarkaði. Það er að eiga sér stað mikil vakning í starfsmannamálum, mannleg stjórnun er orðin rauður þráður í stjórnun íslenskra fyrirtækja. Það er mikil samkeppni um vinnuafl, við þekkjum það, og eitt erfiðasta viðfangsefni í stjórnun starfsmannamála í dag er að laða að og halda góðu fólki. Það er því mjög mikilvægt fyrir fyrirtæki að geta boðið upp á aðlaðandi vinnuumhverfi," sagði hann.

Bætti hann því við að af þessum sökum væri mjög jákvætt að fara af stað með þetta verkefni nú.

Kostnaðaráætlun hljóðar upp á níu milljónir ísl. króna

Eins og áður kom fram var það breska Lundúnasveitarfélagið Kingston upon Thames sem hratt verkefninu af stað. Fræðsluefnið, sem notað verður hér á landi, hefur verið þróað í samvinnu við breska vinnumarkaðsfræðinga en er lagað að íslenskum aðstæðum. Kostnaðaráætlun verkefnisins hér á landi hljóðar upp á níu milljónir króna og er verkefnið fjármagnað með framlögum frá ESB, Reykjavíkurborg og Gallup, auk þátttökugjalds fyrirtækja.

Sérstök upphafsráðstefna verður haldin í Súlnasal Hótels Sögu föstudaginn 6. október og hafa fyrirtæki síðan viku til viðbótar til að sækja um aðild að verkefninu. Ennfremur verður heimasíðu komið upp á Netinu í tengslum við verkefnið, www.hidgullnajafnvaegi.is, og er stefnt að því að hún verði komin í gagnið á morgun, fimmtudag.