Jón var grimmur á svip og ákveðinn í að gera sitt besta eftir 100 metra hlaupið, en hann meiddist í langstökkinu og fékk ekkert stig fyrir það, en hélt þó áfram keppni.
Jón var grimmur á svip og ákveðinn í að gera sitt besta eftir 100 metra hlaupið, en hann meiddist í langstökkinu og fékk ekkert stig fyrir það, en hélt þó áfram keppni.
MEIÐSL í aftanverðu vinstra læri tóku sig upp hjá Jóni Arnari Magnússyni tugþrautarmanni í annarri grein, langstökki, í tugþrautarkeppni Ólympíuleikanna, sem hófst seint í gærkvöldi að íslenskum tíma og á fyrsta tímanum í nótt mátti teljast nær fullvíst...

MEIÐSL í aftanverðu vinstra læri tóku sig upp hjá Jóni Arnari Magnússyni tugþrautarmanni í annarri grein, langstökki, í tugþrautarkeppni Ólympíuleikanna, sem hófst seint í gærkvöldi að íslenskum tíma og á fyrsta tímanum í nótt mátti teljast nær fullvíst að Jón Arnar hætti keppni af þeim sökum. Hann gerði öll stökk sín í langstökkinu ógild og þótt hann gæti hugsanlega þrælað sér áfram í næstu grein, kúluvarpi, þá er ljóst að hann er alveg úr keppni um efstu sætin. Jón hélt áfram í kúluvarpið en reiknað var með að hann og Gísli Sigurðsson, þjálfari, myndu meta stöðuna að því loknu, en þá vargert stutt hlé á tugþrautinni áður en að hástökkinu kom klukkan sjö í morgun.

Meiðslin komu upp í öðru stökki Jóns í keppninni. Hann fékk mjög greinilega sáran sting aftanvert í vinstra lærið í uppstökkinu og haltraði frá langstökksgryfjunni. Fyrir þriðja stökkið var lærið reifað og gerði hann tilraun til að stökkva, en atrennan passaði illa og stökkið varð ógilt eins og þau tvö hin fyrri. Eftir þriðja stökkið var Jón Arnar enn haltari en fyrr og ljóst að hann var verulega þjakaður. Það hafði rignt nærri sem hellt væri úr fötu, með þrumum og eldingum, síðasta hálfa sólarhringinn fyrir keppni og var langstökksbrautin mjög blaut og hál. Var því meiri hætta á meiðslum en ella og það hefur væntanlega haft sitt að segja fyrir Jón Arnar. Sökum aðstæðnanna áttu keppendur í mesta basli með langstökkið þannig að margir þeirra gerðu stökk sín ógild þótt flestir hafi komist slysalaust í gegnum keppnina þegar dæmið var gert upp.

"Jón Arnar varð fyrir þessum meiðslum í vinstra lærinu í vikunni eftir að hann kom heim frá Frakklandi þar sem hann meiddist í ilinni," sagði Vésteinn Hafsteinsson, flokksstjóri frjálsíþróttamanna í samtali við Morgunblaðið á fyrsta tímanum í nótt að íslenskum tíma. "Síðan hann meiddist hefur hann verið í meðferð hjá lækni og sjúkraþjálfara og var alveg hættur að finna til, þannig að við vorum að vona að allt yrði í lagi í keppninni, ekki síst þar sem æfingar hafa gengið vel upp á síðkastið, meðal annars náði hann einni sinni bestu langstökksæfingu fyrir örfáum dögum og þá bar ekkert á meiðslunum," sagði Vésteinn ennfremur.

Meiðslin eru gríðarlegt áfall fyrir Jón Arnar og þjálfara hans Gísla Sigurðsson en allur þeirra undirbúningur undanfarin fjögur ár hefur miðast við að hann yrði í fremstu röð á Ólympíuleikunum. Undanfarin tvö ár hafa verið þyrnum stráð fyrir þá félaga og eftir að Jón Arnar varð í 5. sæti á heimsmeistaramótinu innanhúss í Japan í mars 1999 hefur Jóni aðeins tekist að ljúka keppni í einni tugþraut, það var í júní í Götzis. Hver meiðslin, minni sem meiri, hafa rekið önnur og flest allt gengið í mót.

Þegar Morgunblaðið hitti Gísla þjálfara rétt undir kl. eitt í nótt, beið hann þess að hitta lærisvein sinn. Greinilegt var að Gísli var mjög sleginn vegna þessa nýjasta áfalls enda höfðu hann og Jón gert sér vonir um að nú myndu hlutirnir breytast til betri vegar, enda æfingar gengið afar vel í Ástralíu síðasta mánuðinn. Baðst Gísli undan viðtali þar til hann hefði hitt Jón Arnar.

Þegar meiðslin komu upp hafði Jón Arnar lokið einni grein, 100 m hlaupi.

Þar kom hann í mark á 10,85 sekúndum sem var níundi besti tími sem keppendur náðu.

Ívar Benediktsson skrifar frá Sydney

Höf.: Ívar Benediktsson