RÍKISSTJÓRNIN samþykkti á fundi sínum í gær tillögu Sivjar Friðleifsdóttur umhverfisráðherra um stofnun Vatnajökuls- og Skaftafellsþjóðgarðs sem nái til Vatnajökuls og Skaftafellsþjóðgarðs.

RÍKISSTJÓRNIN samþykkti á fundi sínum í gær tillögu Sivjar Friðleifsdóttur umhverfisráðherra um stofnun Vatnajökuls- og Skaftafellsþjóðgarðs sem nái til Vatnajökuls og Skaftafellsþjóðgarðs. Áður en formlega verður unnt að ganga frá stofnun þjóðgarðsins þarf að skýra betur eignarhald á svæðinu og samræma hugmyndir um landnýtingu.

Alþingi samþykkti þingsályktun í mars í fyrra um að fela umhverfisráðherra að láta kanna möguleika á að stofna Vatnajökulsþjóðgarð. Skýrsla um niðurstöður þessarar könnunar var lögð fyrir Alþingi sl. vor og voru þar kynntar tillögur nefndar sem falið var að vinna að málinu. Nefndin taldi mögulegt að taka ákvörðun um stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs á þessu ári, ef mörk hans verði látin fylgja jaðri jökulsins og mörkum Skaftafellsþjóðgarðs, en benti jafnframt á að mörg mál þurfi að leysa áður en til formlegrar stofnunar þjóðgarðsins getur komið.

Siv Friðleifsdóttir sagði í samtali við Morgunblaðið að umhverfisráðuneytið hefði óskað eftir því við óbyggðanefnd að hún tæki Vatnajökulssvæðið til meðferðar og úrskurðaði um þjóðlendumörk Vatnajökuls. Nefndin hefði orðið við ósk ráðuneytisins að því er varðar hluta svæðisins, þess sem er innan sveitarfélagsmarka Hafnar í Hornafirði. Hún upplýsir aukinheldur að fjármálaráðuneytinu hafi verið tilkynnt um ákvörðun óbyggðanefndar og veittur frestur til 15. nóvember nk. til þess að lýsa kröfum sínum um þjóðlendur á svæðinu.

Heimamenn binda miklar vonir við stofnun þjóðgarðs

Ýmsar hugmyndir um mörk þjóðgarðsins hafa verið til skoðunar að undanförnu, en einnig möguleikar á samspili við aðra landnýtingu á svæðinu, svo sem ferðaþjónustu og hugsanlega þjónustukjarna.

"Það er ljóst að heimamenn binda miklar vonir við stofnun þjóðgarðs á svæðinu og aukna möguleika til uppbyggingar ferðaþjónustu í tengslum við þjóðgarðinn, sérstaklega þar sem landbúnaður á svæðinu hefur dregist saman og byggð stendur höllum fæti," segir m.a. í minnisblaði umhverfisráðherra til ríkisstjórnarinnar vegna þessa máls.

Siv segir að ákvörðun ríkisstjórnarinnar sé mjög mikilvæg og í raun sé um að ræða afar mikilvægt skref í umhverfismálum hér á landi. "Það er mjög brýnt að stofna þennan þjóðgarð, þetta er mjög fallegt og merkilegt svæði út frá sjónarmiðum náttúrunnar. Því munum við leggja okkur fram í þeirri vinnu sem framundan er, svo unnt verði að opna þjóðgarðinn sem fyrst. Árið 2002 er alþjóðlegt ár fjalla og það færi vel á að opna hinn nýja þjóðgarð formlega á því ári."