AÐALEIGENDUR Ölgerðarinnar Egill Skallagrímsson ehf. hafa ákveðið að selja öll hlutabréf sín í fyrirtækinu, en þau nema tæpum 98% af skráðu hlutafé.

AÐALEIGENDUR Ölgerðarinnar Egill Skallagrímsson ehf. hafa ákveðið að selja öll hlutabréf sín í fyrirtækinu, en þau nema tæpum 98% af skráðu hlutafé. Einungis er leitað til fjögurra fjármálafyrirtækja varðandi tilboð í Ölgerðina og er þá ætlunin að selja allan hlutinn í einu lagi. Það verður síðan undir viðkomandi kaupanda komið hvert framhaldið verður.

Afkoma Ölgerðarinnar hefur að sögn Jóns Snorra Snorrasonar framkvæmdastjóra fyrirtækisins verið með ágætum undanfarin ár og stendur fyrirtækið vel í dag. Ársvelta síðasta árs nam rúmum 2,4 milljörðum króna og hagnaður var 150 milljónir króna. Fyrirtækið var stofnað árið 1913 af Tómasi Tómassyni og er eitt stærsta fjölskyldufyrirtæki landsins með 140 starfsmenn.

Þær fjórar fjármálastofnanir sem gefinn var kostur á gera tilboð í fyrirtækið eru Landsbanki Íslands, Búnaðarbanki Íslands, Íslandsbanki-FBA og Kaupþing. Kynningarviðræður eru þegar hafnar við hvert þessara fjármálafyrirtækja fyrir sig og er ætlast til að sent verði kauptilboð í allan hlutinn sem er í boði. Að sögn Jóns Snorra er það skýrt tekið fram að öðrum aðilum en þessum fjórum verður ekki boðið að kaupa hlutabréfin og ekki verður rætt við aðra aðila í því sambandi að svo stöddu. Jón Snorri segir að vonast sé til að viðræður gangi vel fyrir sig og að eigendaskipti gangi í gegn í næsta mánuði.

Telja gott að selja núna

Aðspurður um ástæðuna fyrir sölunni sagði Jón Snorri að líklega teldu eigendur það gott að selja núna, en að þeir hefðu ekki tilgreint neina eina ástæðu fyrir sölunni, og sagðist hann ekki geta nefnt hugsanlegt kaupverð fyrirtækisins.

"Ég geri nú ráð fyrir að menn hafi gert sér eitthvað í hugarlund varðandi kaupverð. Eins og alltaf þegar menn setja hlut í sölu, þá hafa þeir einhverjar hugmyndir sjálfir, en að öðru leyti var ákveðið að óska eftir tilboðum frá þessum fjórum aðilum."

Ekki náðist í gær í forsvarsmenn þeirra fjögurra fjármálafyrirtækja sem gefinn er kostur á að gera tilboð í 98% hlut í Ölgerðinni.