STÚLKURNAR þrjár létu ekki óblíða veðráttu á sig fá er þær héldu heim á leið úr skólanum í Reykjavík heldur brostu hressilega og veifuðu létt til ljósmyndara Morgunblaðsins.

STÚLKURNAR þrjár létu ekki óblíða veðráttu á sig fá er þær héldu heim á leið úr skólanum í Reykjavík heldur brostu hressilega og veifuðu létt til ljósmyndara Morgunblaðsins. Piltarnir sem með þeim gengu létu sér hins vegar fátt um finnast og örkuðu áfram með vindinn í fangið.

Um fimmtán þúsund nemendur stunda nú nám við grunnskóla Reykjavíkur. Er skólastarfið komið vel á veg enda langt liðið á septembermánuð. Eftir því sem lengra líður á veturinn er líklegra að börnin fari að draga fram hlýrri fatnað en mörg þeirra setja einnig upp endurskinsmerki sem nauðsynleg þykja í skammdeginu.