HELGINA 6.-8. október verður haldið raddbeitingarnámskeið í Smárasal Söngskólans í Reykjavík.

HELGINA 6.-8. október verður haldið raddbeitingarnámskeið í Smárasal Söngskólans í Reykjavík. Námskeiðið byggir á grunni 25 ára rannsókna óperusöngkonunnar Jo Estell á beitingu raddbanda og hálsvöðva við mismunandi aðstæður, hvort heldur sem er söng eða tal.

Við rannsóknirnar er beitt örsmárri myndavél sem rennt er ofan í háls viðkomandi til að athuga nákvæmlega hvaða vöðvar eru notaðir við mismunandi söngstíla, s.s. óperusöng, rokk- og sveitasöngva sem og venjulegt talmál. Þannig hefur hálsinn verið kortlagður og því hægt að sjá hvar meinið liggur þegar vandkvæði í hálsi koma upp. Röng raddbeiting eða óeðlileg áreynsla á röddina getur valdið hvimleiðum hnútum á raddböndum sem hingað til hefur aðeins verið hægt að lagfæra með skurðaðgerð.

Dagrún Hjartardóttir söngkennari segir að með kenningum The Jo Estell Voice Craft-námskeiðsins sem kenna réttari aðferðir, æfingar og lærða raddbeitingu, sé hægt að lagfæra skaðann án skurðaðgerðar auk þess að koma í veg fyrir frekari vandkvæði. Námskeiðið er ætlað áhugafólki um góða og rétta raddbeitingu, fólki sem hefur röddina að atvinnu eins og leikarar, söngvarar, talmeinafræðingar og háls-, nef- og eyrnalæknar.

Leiðbeinandi á námskeiðinu verður Paul Farrington, lærisveinn Estell, tenórsöngvari og kennari við Konunglegu tónlistarakademíuna í London.

Námskeiðið fer fram í formi fyrirlestra og æfinga þar sem þátttakendum er skipt niður í smærri hópa svo hver og einn fái rétta leiðsögn og finni hvernig hálsvöðvarnir virka. Á kvöldin verða svo opnir tímar þar sem nemendum gefst færi á nánari aðstoð.