Staða Orra frá Þúfu er sem fyrr afar sterk í kynbótamatinu og nú þegar hann hefur hlotið Sleipnisbikarinn má ætla að lítil breyting verði á fyrr en ævidögum hans verður lokið. Spurningin er hinsvegar sú hvort einhver yngri hestur nær svipaðri eða betri stö
Staða Orra frá Þúfu er sem fyrr afar sterk í kynbótamatinu og nú þegar hann hefur hlotið Sleipnisbikarinn má ætla að lítil breyting verði á fyrr en ævidögum hans verður lokið. Spurningin er hinsvegar sú hvort einhver yngri hestur nær svipaðri eða betri stö
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kynbótamat Bændasamtakanna hefur óumdeilanlega skipað sér sess sem einn af hornsteinum metnaðarfullrar hrossaræktar. Áhugi og spenna er ávallt í kringum sjálfa kynbótadómana sem matið byggist á en síðan koma nýir útreikningar í kjölfar dóma hvers árs eins og góður ábætir að loknum dýrlegum aðalrétti. Valdimar Kristinsson leit yfir nýju tölurnar glóðvolgar, nýkomnar frá Ágústi Sigurðssyni hrossaræktarráðunaut.

Áherslur í íslenskri hrossarækt hafa verið að breytast á síðustu árum. Ræktunarstefnan hefur tekið meira mið af því hvaða eiginleikar selja best, ræktendur eru með öðrum orðum farnir að hugsa meira á markaðslegum nótum en hugsjónamennskan sem réð mjög ríkjum virðist óðum að víkja. Besta dæmið þar um er að nú er búið að taka prúðleika hrossa á fax, tagl og hófskegg inn í dómana og hægatöltið gefið upp leiðbeiningar en ekki reiknað í aðaleinkunn. Um prúðleikann virðist ríkja mikill einhugur, menn deila ekki um að hárprúð hross falli kaupendum betur í geð en þau snoðnu. Um fetið sem einnig hefur verið tekið inn ríkir ekki alveg eins mikill einhugur en erfitt hefur verið að neita þeirri staðreynd að ótrúverðugt sé að kynna fjölhæfan hest með fimm gangtegundir en síðan sé aðeins lagt mat á fjórar þótt sú fimmta, fetið, sé talsvert notuð og alls ekki deilt um gildi hennar í þjálfunarferlinu.

En nú er það spennan í kringum nýja útreikninga kynbótamatsins að loknum síðsumardómum.

Orri frá Þúfu hefur sem fyrr trygga forystu er með 135 stig en er þó heldur á niðurleið frá uppfærslu á síðasta ári en þá var hann með 137 stig. Að öðru leiti vísast til meðfylgjandi töflu um efstu stóðhesta með fleiri en 50 afkvæmi. Þar getur að líta í fremsta dálk aðaleinkunn hestanna, þá skráð afkvæmi, dæmd afkvæmi og öryggi.

Í flokki stóðhesta með 15 til 49 dæmd afkvæmi stendur efstur Kraflar frá Miðsitju með 129 stig og 36 dæmd afkvæmi. Trostan frá Kjartansstöðum fylgir fast á hæla hans með 128 stig og 25 dæmd afkvæmi. Gustur frá Hóli II er í þriðja sæti með 127/28, Oddur frá Selfossi fjórði með 126/41, Óður frá Brún er með 125 í fimmta sæti og 18 dæmd afkvæmi. Næstir koma Kolskeggur frá Kjarnholtum I með 124/15, Páfi frá Kirkjubæ með 123/28, Toppur frá Eyjólfsstöðum122/37, Safír frá Viðvík með 122/31 og Sólon frá Hóli með 122/26.

Nýtt nafn er komið á toppinn meðal stóðhesta sem hafa færri en 15 afkvæmi og er það sigurvegari landsmótsins í flokki fjögra vetra stóðhesta Ýmir frá Holtsmúla I sem er með 133 í einkunn og að sjálfsögðu ekkert dæmt afkvæmi frekar en flestir aðrir hestarnir í þessum flokki. Næstur Ými er Hamur frá Þóroddstöðum með 131 en næstir koma með 130 stig Glaumur frá Auðsholtshjáleigu, Fannar frá Auðsholtshjáleigu, Frami frá Svanavatni og Hljómur frá Brún. Með 129 stig eru svo Seifur frá Apavatni, Skorri frá Blönduósi og Hrókur frá Glúmsstöðum II.

Af hryssum er Þrenna frá Hólum efst með 135 stig. Stjarnan frá landsmótinu Gleði frá Prestbakka er komin í annað sæti eftir frábæra frammistöðu á árinu með 133 stig ásamt Þilju frá Hólum og Rauðhettu frá Kirkjubæ. Bringa frá Feti kemur næst með 131 stig. Jafnar með 130 stig eru svo Þeysa frá Hólum, Trú frá Auðsholtshjáleigu, Gletting frá Hotlsmúla I, Vigdís frá Feti og Orða frá Víðivöllum fremri.

Nánar verður gluggað í kynbótamatið í hestaþætti síðar. Á mbl.is er hægt að sjá allar einkunnir 10 til 12 efstu hrossanna í hverjum flokki með því að fara inná íþróttir og þaðan inn á hesta.

Höf.: Valdimar Kristinsson