EKKI verður sagt að það sé beint skemmtilegt að verða fyrir því að vera staðinn að verki við hraðakstur. Víkverji varð hins vegar fyrir því á dögunum, í annað sinn á ökumannsævi sinni (hef nú verið bílstjóri í 31 ár!

EKKI verður sagt að það sé beint skemmtilegt að verða fyrir því að vera staðinn að verki við hraðakstur. Víkverji varð hins vegar fyrir því á dögunum, í annað sinn á ökumannsævi sinni (hef nú verið bílstjóri í 31 ár!) og var það hin árvökula Blönduóslögregla sem þar var að verki.

Leiðin lá frá Akureyri til Reykjavíkur og var Víkverji á lánsbíl sem var nokkuð fótfrár. Hafði Víkverji á ferð sinni fram Öxnadalinn tekið eftir að honum var mjög hætt við að fara yfir 90 km mörkin ef hann fylgdist ekki því betur með mælinum. Það gerir Víkverji reyndar yfirleitt (þótt hann segi sjálfur frá) og veit nokkurn veginn upp á hár á hvaða hraða hann er hverju sinni. Vitanlega gætti hann sín því á þessari ferð á síðkvöldi í síðustu viku en eftir að komið var fram hjá Blönduósi varð Víkverji fyrir andartaks hlé eða truflun og því fór sem fór: Bláu ljósin blikkuðu á móti og Víkverji var beðinn að setjast yfir í lögreglubílinn og hafa með sér ökuskírteini. Þar blikkaði mælir lögreglubílsins á 119 km og Víkverji gat enga björg sér veitt og gerði ekki tilraun til að útskýra framferðið, hafði bara ekki fylgst með hraðanum. Hann hafði reyndar verið svo grandalaus að þegar hann sá bláu ljósin fyrst hélt hann að eitthvað væri að fram undan, flutningabíll með breiðu hlassi í lögreglufylgd eða eitthvað slíkt. Ekki hvarflaði að honum að honum að nokkuð væri athugavert við eigið framferði!

Afleiðingin er 10 þúsund króna sekt sem lækkar þó í 7.500 kr. sé hún greidd innan tilskilins tíma. Fram hjá þessu verður ekki komist en Víkverja sárnar eigin aulaháttur mun meira en sektin sjálf, að hafa ekki fylgst betur með bæði hraðanum og ferðum lögreglunnar.

Það er hins vegar ekki hægt annað en kyngja þessu, taka ofan fyrir Blönduóslögreglunni og virða eftirlit hennar og annarra lögreglumanna sem er auðvitað til þess gert að halda aftur af okkur í umferðinni. Meðan hraðamörkin eru 90 km á þjóðvegunum verðum við að halda okkur við þau. Hins vegar ætti að vera hægt að endurskoða þau á ákveðnum köflum á hringveginum því sums staðar - og meðal annars í umdæmi Blönduóslögreglunnar - eru langir og beinir kaflar með rennisléttu slitlagi og góðu útsýni til allra átta. Þar hlýtur að vera hægt að leyfa ökumönnum að spretta örlítið meira úr spori. Er endilega nauðsynlegt að 90 km mörkin gildi allan hringveginn?

HÚN er skemmtilega frumleg sú herferð landlæknis að minna okkur á að eiga samfundi hvert við annað með erindinu úr Hávamálum þar sem segir að maður sé manns gaman. Við eigum að fara og finna oft þann vin sem við vel trúum. Við getum eflaust verið sammála um að þetta sé sannleikur og sjálfsagt erum við líka mörg í þeirri stöðu að rækta þetta ekki nógu vel. Það þarf nefnilega tíma og ákveðna vinnu til að halda í vinina og gæta þess að sambandið við þá rofni ekki.

Ekki er víst að aðstaða sé alltaf til að hitta vinina ótt og títt en þá grípa menn til nútímatækjanna eins og símans og tölvupósts eða gamaldags bréfaskrifta. Nógu fróðlegt væri nú að vita hvort slík samskipti eiga enn uppá pallborðið hjá nútímamanninum.