SIGURRÓS hafði samband við Velvakanda og langaði hana að vita hvort einhver kannast við eftirfarandi barnagælu. Henni finnst endilega að það vanti erindi inn í hana. Hún söng þessar gælur alltaf fyrir börnin sín þegar þau voru lítil.

SIGURRÓS hafði samband við Velvakanda og langaði hana að vita hvort einhver kannast við eftirfarandi barnagælu.

Henni finnst endilega að það vanti erindi inn í hana. Hún söng þessar gælur alltaf fyrir börnin sín þegar þau voru lítil.

Hættu að gráta heillin mín hérna kem ég með gullin þín.

Ég vil engin gull mig langar út æ vilt þú lána mér hettuklút.

Þú átt enga sokka, þú átt enga skó en úti er bleyta og forin nóg.

Ég stíg yfir bleytu og stikla yfir for á stekkin ég kem með þér í vor.

Hann boli er úti og bítur þig hann baulaði áðan og hræddi mig.

Ég hræðist hann bola ég hræðist hann ei ég hef þá með mér hann Valda grey.

Hann Valdi er svo kjarklaus og kraftasmár karlmennsku vantar og ráða fár.

Ég held að hann pabbi hjálpi mér ég hlusta ekki á þetta bull í þér.

Svo fékk Sigríður sokka og skó þá varð hún kát og skellihló.

Svo fóru þær út og léku sér leituðu að blómum og tíndu ber.

Þeir sem geta gefið upplýsingar hafi samband við Erlu í síma 569-1117.

Vatnsendamálið

Þegar útivistarfólk er á gangi, hjólandi eða á hlaupum um Vatnsendabyggðina þá hugsar það að skaparinn hafi verið ansi örlátur hér. Síðan eru sótsvartir íhaldsmenn sem telja sig tilheyra Kópavogi, eins og Kópavogur væri staðsettur einhvers staðar nálægt Palestínu. Þar sem skæruliðar með sín eyðileggingaröfl ráða ríkjum. Það er eitt stórt höfuðborgarsvæði hvort sem það heitir Reykjavík, Kópavogur, Hafnarfjörður, Vatnsendi eða Mosfellsbær. Á höfuðborgarsvæðinu þurfa allir að taka tillit til hver annars og lifa í sátt við hver annan. Ef það eiga að rísa blokkir á Vatnsendahæð væri það listrænn harmleikur. Það ætti þá frekar að kalla Vatnsendahæðina eftir það Golgata, því þá væru eftir fáar náttúruperlur í nágrenni við höfuðborgina sem gæfu frá sér jákvæða orku og hleðslu. Fólk þyrfti að keyra óraleið til að geta verið í nánum tengslum við náttúruna án sjónmengunar og bílamengunar.

Halldóra María

Steingrímsdóttir.

Ruslpóstur

Við tökum ofan fyrir Hreggviði Jónssyni vegna aðgerða hans gegn ruslpósti.

Hann framkvæmir það sem við mörg hver höfum verið að ergja okkur yfir og nöldrað um í kunningjahópi.

Þar sem við höfum bæði búið og ferðast töluvert erlendis þá teljum við okkur þekkja þetta fyrirbrigði nokkuð, sérstaklega í Þýskalandi. Þar geta menn beðist undan því að fá þennan auglýsingapóst, sem engum er merktur, í póstkassana. Er það ýmist gert með tilkynningu til pósthúss hverfisins eða með því að setja miða á póstkassann þar sem segir að ekki sé óskað eftir auglýsingapósti. Slíkar beiðnir virðast nær undantekningalaust vera virtar.

Við höfum nú gert tilraun með að setja slíkan miða á okkar póstkassa og bíðum spennt eftir að sjá hvort hann ber árangur.

Við erum ekki hissa á því að Hjörtur Guðnason prentari skuli vera hrifinn af auglýsingapóstinum. Það er jú hans lifibrauð að framleiða hann.

Svana og Gunnar .

Húrra fyrir Ríkissjónvarpinu

LOKSINS hefur Ríkissjónvarpinu tekist að finna sjónvarpsmynd þar sem ekki er verið annaðhvort að berja, drepa fólk eða samfarasenur með fárra mínútna bili. Hér á ég við myndaflokkinn Hálandahöfðingjann sem sýndur er á sunnudagskvöldum. Hann er vel leikinn og persónurnar venjulegt fólk í fallegu umhverfi og með góðan húmor. Ég vona að Rás 1 fari að leita að betra og vandaðra efni, en verið hefur upp á síðkastið.

6171-2380.

Rósa á Skjá einum

KONA hafði samband við Velvakanda og var verulega sár yfir því að þátturinn Rósa hefði verið tekinn af Skjá einum og Djúpa laugin sett í staðinn og ekki nóg með það, heldur eru þetta gamlir þættir. Rósa tók á hinum ýmsu málum, sem ekki eru almennt rædd í íslensku þjóðfélagi. Henni finnst það verulega slæm skipti. Rósu aftur á Skjá einn.

Lítið hálsmen fannst

LÍTIÐ hálsmen með dökkbláum steini og gullfesti, fannst á bílastæðinu við Gufuneskirkjugarð, laugardaginn 23. september sl. Upplýsingar í síma 568-5271.

Seðlaveski tapaðist

LÍTIÐ samanbrotið seðlaveski tapaðist miðvikudaginn 20. september sl., sennilega í Stangarholti. Í veskinu voru öll skilríki. Upplýsingar í síma 897-0032, Þórhildur.

Taska og jakki týndust

Hinn 21. september týndust taska og jakki. Taskan er svört með ól. Í veskinu var gsm-sími, hús- og bíllyklar og aðrar persónulegar eigur. Finnandi vinsamlega hafi samband í síma 552-7180 eða skili eigunum í vörslu lögreglu eða þar sem eigandi getur nálgast þá.