Baldur Dýrfjörð
Baldur Dýrfjörð
Ásta Hrönn Björgvinsdóttir réðst að undirrituðum og FSA algerlega að ósekju, segir Baldur Dýrfjörð, og á mjög ódrengilegan hátt.

ÁSTA Hrönn Björgvinsdóttir framkvæmdastjóri World Class (WC) ritar að nýju grein í Morgunblaðið föstudaginn 22. september sl. vegna heilsuræktarútboðs Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri (FSA).

Geinin er í þremur hlutum sem bera heitin "Ófagleg vinnubrögð", "Leigusamningurinn" og "Kært til Samkeppnisstofnunar".

Í kaflanum "Ófagleg vinnubrögð" getur Ásta Hrönn þess að ástæða þess að hún hafi komið reið á skrifstofu mína hafi verið sú að ég hafi verið búinn að setja upp auglýsingar um að við ætluðum að ganga til samninga við Vaxtarræktina - Fimi (VF) og það án þess að láta aðra tilboðsgjafa vita. Þetta er að hluta til rétt, þ.e.a.s. sendir voru út spurningalistar (könnun) þar sem spurt var hverjir myndu nýta sér tilboð VF ef gengið yrði til samninga við það fyrirtæki. Það er líka rétt að áður en þessir spurningalistar voru sendir út hafði undirritaður ekki sent tilboðsgjöfum bréf um niðurstöðu útboðsins. Í umræddu samtali mínu við Ástu Hrönn viðurkenndi ég að það hefði farið betur á því að þau hefðu fengið rafpóst frá mér þar um, og NB ég bað Ástu Hrönn einnig að afsaka þessi mistök mín. Þeirri afsökunarbeiðni minni tók hún vel, en sagði að það væri ekki meginástæða komu sinnar til mín. Ástæðan var sú að samkeppnisaðilinn bauð að hennar mati ekki eins góða þjónustu, ekki eins góð tæki, ekki eins góða kennara og ekki eins gott húsnæði og hennar fyrirtæki. Það ætti því að semja við hana. Svör mínu við þessum atriðum má finna í grein minni í Morgunblaðinu laugardaginn 16. september sl.

Í kaflanum "Leigusamningurinn" heldur Ásta Hrönn sig enn við sama heygarðshornið, sbr. yfirsögnina á grein hennar "sök bítur sekan", þ.e. hún heldur því fram að ég sé sekur í málinu. Frásögn Ástu Hrannar er rétt að hluta til, en túlkun og tímaröð skipta hér eins og áður miklu máli. Ásta Hrönn hélt því fram að útboðið væri sýndarmennska ein. Hún heldur því fram að ég hafi vitað fyrir fram hver yrði niðurstaðan þar sem ég hafi í fyrra starfi mínu "gert" leigusamning við Vaxtarræktina, þ.e samkeppnisaðilann. Eins og áður er komið fram sagði ég Ástu Hrönn að þegar ég var að vinna að þessari nýbreytni í heilsuræktarmálum FSA með umræddu útboði, hafi umræddur leigusamningur að sjálfsögðu ekki verið í huga mínum, hvað þá að ég hafi fyrirfram vitað hver yrði niðurstaða útboðsins. Þegar Ásta Hrönn síðan rifjar málið upp með því meðal annars að leggja skjöl þar að lútandi á borðið, rifjast auðvitað ýmislegt upp. Það var einmitt þá sem ég benti Ástu Hrönn á þá staðreynd að á engan hátt væri eðlilegt að ég eða FSA gerðist dómari í þessari sök, meintri ólögmætri samkeppnisaðstöðu. Það væri ekki okkar að gerast dómari og neita viðskiptum við samkeppnisaðilann vegna þess að WC teldi að samkeppnisaðstaðan væri ekki í lagi. Það er rétt að við þessi orðaskipti rifjaðist upp fyrir mér að ég hafði fyrir um það bil fjórum árum flutt fyrirlestur um samkeppnismál ("Samkeppnisstaða þjónustureksturs sveitarfélaga") á ráðstefnu sem bar heitið "Eiga sveitarfélög að annast framkvæmd á eigin þjónustu". Með tilvísun í þennan fyrirlestur tók ég undir það með Ástu Hrönn að sveitarfélög yrðu að gæta jafnræðis og sagði henni jafnframt að ég hefði í fyrirlestrinum nefnt nokkur dæmi um samninga hjá sveitarfélögum og þ.m.t. hjá Akureyrarbæ sem kynnu að orka tvímælis og stundum hefði verið deilt á. Dæmin sem ég nefndi voru útleiga á húsnæði (þ.m.t. til VF), rekstur og sala á þjónustu öryggiskerfis, rekstur sólbaðsstofu og útleiga á íþróttasal og húsbúnaði Íþróttahallarinnar til veisluhalda. Hvorki í umræddum fyrirlestri né í samtali mínu við framkvæmdastjóra WC fullyrti ég eitt eða neitt um að þessir samningar stæðust ekki samkeppnislög, enda er ég ekki dómari í þeirri sök. Þessi dæmi voru nefnd með áðurgreindum formerkjum í tengslum við fjölmörg önnur og þá ekki síst mál sem úrskurðir hafa fallið um.

Eftir stendur að hafi ég átt að vita fyrirfram hver yrði niðurstaða útboðs FSA, þá hlaut Ásta Hrönn einnig að vita það þar sem hún hefur að eigin sögn lengi haft vitneskju um umræddan leigusamning samkeppnisaðilans og Akureyrarbæjar. Því hlýtur sú spurning að vakna af hverju hún tók þátt í útboðinu, af hverju sá hún ástæðu til að þakka mér sérstaklega fyrir góð útboðsgögn? Augljóst er að Ásta Hrönn Björgvinsdóttir réðst að undirrituðum og FSA algerlega að ósekju og á mjög ódrengilegan hátt. Eins og stundum áður komst reiðin ekki í réttan farveg. Við vitum flest að stundum er nauðsynlegt að telja upp að tíu, bíta í tunguna og hugsa málið. Því gleymdi Ásta Hrönn. En núna loksins eftir margra ára reiði, að því er virðist, hefur Ásta Hrönn komið auga á réttu leiðina, sbr. niðurlagskafla greinar hennar "Kært til Samkeppnisstofnunar" og hvern er hún að kæra, undirritaðan eða FSA, nei, að sjálfsögðu ekki.

Ágæti framkvæmdastjóri, Ásta Hrönn, krafa mín um afsökunarbeiðni þína stendur óhögguð.

Höfundur er starfsmannastjóri FSA.