Karl Gústaf  Ásgrímsson
Karl Gústaf Ásgrímsson
Kannske er of mikið, segir Karl Gústaf Ásgrímsson, að við fáum þrjú hundruð króna hækkun á mánuði.

MARGIR hafa á undanförnum mánuðum sagt í máli og myndum frá þróun ellilífeyris og tekjutryggingar, hvernig hlutur ellilífeyrisþega hefur lækkað, sem hlutfall í samanburði við almenna launaþróun undanfarin ár, og að enn væri stefnt að lækkun þessa hlutfalls á næstu árum. Um síðustu mánaðamót fengum við ellilífeyrisþegar hækkun, sem ekki skal vanþakka eða vanmeta. Ellilífeyrir hækkaði úr 17.592 kr. í 17.715 eða um 123 kr. hækkun, eitt hundrað tuttugu og þrjár krónur. Þetta á að vera full leiðrétting og með hækkunina frá 1. apríl sem var 157 kr. samtals hefur ellilífeyrir hækkað um 280 kr. frá því að almennir kjarsamningar voru gerðir, og allir sem sömdu fengu nokkur þúsund króna hækkun.

Full tekjutrygging hækkaði núna úr 30.249 kr. í 30.461 kr. eða um 212 kr., hækkun tvö hundruð og tólf krónur. Þannig fengum við hækkun samtals 335 kr., þrjú hundruð þrjátíu og fimm krónur, þeir sem mest fengu. Er þetta ekki ofrausn? Ellilífeyrir og full tekjutrygging er í dag samtals 48.146 kr.

Á sama tíma og við erum að fá þessar rausnarlegu hækkanir segja kennarar að fastakaup þeirra þurfi að hækka um a.m.k. tvöfalda þá upphæð, sem ellilífeyrir og tekjutrygging er, á mánuði, áður en farið verði að semja um kauphækkanir í nýjum kjarasamningi.

Eldri borgarar hafa bent á margar leiðir til að fá hluta af góðærinu til sín, en alltaf er talað fyrir daufum eyrum stjórnmálamanna og annarra ráðamanna, m.a. hefur verið bent á að hækka persónuafslátt, fjölga skattþrepum, og að lækka skatta af greiðslum úr lífeyrissjóðum með því að skattleggja hluta þeirra sem fjármagnstekjur.

Á þetta hefur ekki verið hlustað, en hvaða tillögur eða hugmyndir eru ráðherrar með núna þegar ríkissjóður skilar á þriðja tug milljarða hagnaði, á þá að bæta hag hinna lægstu, ellilífeyrisþega og öryrkja? Nei, það hvarflar ekki að ráðherrum og stuðningsmönnum þeirra á Alþingi.

En nú rennur blóðið til skyldunnar hjá sjávarútvegsráherra og forsætisráðherra, þegar fjölmörg fyrirtæki hafa verið að gefa upp hvernig afkoman er og gefa flest upp mikinn hagnað sem telja má í milljónum eða milljörðum króna, þá telja ráðherrarnir tímabært að fara að lækka skatta á fyrirtækjunum.

En þeim finnst það nóg og kannske of mikið að við fáum þrjú hundruð króna hækkun á mánuði.

Það er ömurlegt til þess að hugsa að þessir ráðherrar, sem við eldri borgarar erum búnir að mennta og byggja upp þjóðfélag fyrir skuli vera svo blindir að þeir sjá ekki nema eigið ágæti og geta látlaust horft á okkur eldri borgara og öryrkja með bundið fyrir bæði augu.

Þeir hljóta að vera stoltir af sjálfum sér fyrir að segja að þrjú hundruð króna hækkun til okkar jafngildi tug þúsunda hækkunum sem þeir skammta sér eða láta skammta sér. Eru menn hættir að kunna að skammast sín?

Höfundur er formaður Félags eldri borgara í Kópavogi.

Höf.: Karl Gústaf Ásgrímsson