½ Leikstjóri: Bruno Barreto. Handrit: Alexandrew Machado og Fernanda Young. Aðalhlutverk: Amy Irving og Antonio Fagundes. (95 mín.) Brasilía/Bandaríkin, 1999. Skífan. Bönnuð innan 12 ára.

Þessi rómantíska gamanmynd gerist í Rio de Janeiro og birtir það sem gæti virst okkur norðurhvelsbúum sérlega aðlaðandi mynd af hinu ljúfa lífi með hvítum söndum, pálmatrjám og bleiku sólarlagi. Þar segir frá ýmsum persónum sem tengjast á einn eða annan hátt, m.a. í gegnum flókna ástarþrí- og ferhyrninga. Aðalpersónurnar eru þó breska kennslukonan Mary Ann og brasilíski klæðskerasonurinn Pedro Paulo. Sá rómantíski farsi sem reynt er að búa til í kringum persónur myndarinnar er hins vegar frekar flatur, og er það aðallega tónlistin sem heldur stemmningunni uppi. Þar er, líkt og titilinn gefur til kynna, um að ræða seiðandi bossa nova tónlist. Myndin á þó sína spretti og þá sérstaklega þar sem hún fjallar um gamla og rótgróna klæðskera sem kunna ýmis fagleyndarmál, eins og til dæmis að segja til um gæði efnis með því að ,,hlusta" á það. Annars er þetta fremur litlaus rómantísk gamanmynd, þrátt fyrir bleika sólarlagið og suðrænu sveifluna.

Heiða Jóhannsdóttir