Leikstjóri: Robert Ditchburn. Handrit: Ron Base. Aðalhlutverk: Patrick Bergin og Annie Dufresne. (90 mín) Bandaríkin, 1999. Myndform. Bönnuð innan 16 ára.

Blaðamaðurinn Alec Dodge er þessi týpíski hugsjónablaðamaður sem sést oft í bíómyndum. Sannleikurinn skal koma fyrir augu lesenda hvað sem það kostar. Meira að segja sjálfur eigandi dagblaðsins sem Alec vinnur fyrir fær að kenna á því þegar upp kemst um spillingu hjá kauða. Alec birtir grein um glæpastarfsemi eigandans en missir við það starfið. En þá fyrst tekur að syrta í álinn hjá Alec og áður en hann veit af er hann hundeltur af lögreglunni fyrir morð sem hann framdi ekki. Það er nánast ekkert sem fær mann til að lyfta brúnum í þessari mjög svo flötu og þreyttu spennumynd. Ein persóna jaðrar þó við að vera sniðug, en það er rannsóknarlögreglumaðurinn sem eltir Alec og hefur sínar sérstöku vinnuaðferðir. Hann gerir myndina þó ekki þess virði að sitja hana út í gegn og er því ekki mælt með henni.

Heiða Jóhannsdóttir