BREIÐAFJARÐARFERJAN Baldur hf. sem hefur rekið samnefnt skip í áætlunarsiglingum á Breiðafirði, hefur ákveðið að gera formlegar athugasemdir við framkvæmd Vegagerðarinnar á nýafstöðnu útboði vegna Breiðafjarðarferju.

BREIÐAFJARÐARFERJAN Baldur hf. sem hefur rekið samnefnt skip í áætlunarsiglingum á Breiðafirði, hefur ákveðið að gera formlegar athugasemdir við framkvæmd Vegagerðarinnar á nýafstöðnu útboði vegna Breiðafjarðarferju. Hefur fyrirtækið krafist upplýsinga um útreikning kostnaðaráætlunar Vegagerðarinnar og hvaða forsendur liggi þar að baki.

Í bréfi sem Breiðafjarðarferjan Baldur hefur sent Vegagerðinni er bent á að samkeppnisráð hafi árið 1994 kveðið á um að samkeppnisrekstur og ríkisstyrktur rekstur ferjufyrirtækja af þeim toga sem um ræði í þessu útboði, skuli fjárhagslega aðskilinn. Vegagerðin sé eins og aðrir bundin af lögum í því efni.

Um var að ræða úrskurð um samkeppnisaðstöðu Djúpbátsins, sem rak Fagranesið á Ísafjarðardjúpi, en Fagranesið var þá nýtt til flutninga í samkeppni við aðra utan þess tíma sem skipið var í áætlunarsiglingum. Samkeppnisráð byggði niðurstöðu sína á því að Djúpbáturinn hf. nyti umfangsmikilla ríkisstyrkja og því verndar í skilningi samkeppnislaga.

Kappkostað að vera ekki í samkeppnisrekstri

Að fyrirtækinu Breiðafjarðarferjunni Baldri standa ríkissjóður, sveitarfélög við Breiðafjörð og nokkrir einstaklingar. Í bréfinu til Vegagerðarinnar segir lögmaður fyrirtækisins að það hafi kappkostað á undanförnum árum að vera ekki í samkeppnisrekstri og talið sér óheimilt að gera í tilboðinu ráð fyrir tekjum af notum m/s Baldurs í öðrum rekstri utan áætlunarsiglinga sem réttlætt gætu minni þörf fyrir ríkisstyrk.

Nú hafi lægstbjóðandi í útboði vegna Breiðafjarðarferju upplýst opinberlega að hann hyggist afla tekna af rekstri Baldurs m/s í samkeppni á markaði og nýta þær tekjur til að afla samlegðaráhrifa í rekstri. Því virðist mega áætla að mun á tilboðum megi í það minnsta að einhverju leyti rekja til þessa.

Ríkisstyrktur rekstur aðskilinn eða útboðið afturkallað

Krefst fyrirtækið þess að Vegagerðin krefjist þess af bjóðendum við mat tilboða að þeir skilji að ríkisstyrktan rekstur og samkeppnisrekstur. Að öðrum kosti er þess krafist að Vegagerðin afturkalli útboðið og láti nýtt útboð fara fram með lögboðnum hætti.

Í útboði Vegagerðarinnar var lægsta tilboðið í rekstur Breiðafjarðarferju frá Sæferðum í Stykkishólmi ehf., 166,1 milljón. Breiðafjarðarferjan Baldur ehf. í Stykkishólmi bauð 184,7 milljónir og Nýsir hf. Reykjavík bauð 198,9 milljónir króna. Kostnaðaráætlun er upp á 136 milljónir króna.