Skoskir lögreglumenn á verði við dómhús í Hollandi þar sem réttað er í máli Líbýumanna sem grunaðir eru um að hafa grandað þotu sem sprakk í loft upp yfir skoska bænum Lockerbie fyrir tólf árum.
Skoskir lögreglumenn á verði við dómhús í Hollandi þar sem réttað er í máli Líbýumanna sem grunaðir eru um að hafa grandað þotu sem sprakk í loft upp yfir skoska bænum Lockerbie fyrir tólf árum.
FYRRVERANDI njósnari Líbýustjórnar, aðalvitnið í réttarhöldunum sem hafin eru í Hollandi yfir meintum tilræðismönnum að baki sprengingar í þotu yfir skozka bænum Lockerbie fyrir tæpum tólf árum, bar um það vitni í gær, að annar sakborninganna hefði á...

FYRRVERANDI njósnari Líbýustjórnar, aðalvitnið í réttarhöldunum sem hafin eru í Hollandi yfir meintum tilræðismönnum að baki sprengingar í þotu yfir skozka bænum Lockerbie fyrir tæpum tólf árum, bar um það vitni í gær, að annar sakborninganna hefði á sínum tíma geymt sprengiefni í læstri skrifborðsskúffu á alþjóðaflugvellinum á Möltu. Talið er að það hafi verið frá þeim flugvelli sem taskan var send, sem geymdi sprengjuna sem grandaði Boeing-risaþotu PanAm-flugfélagsins hinn 21. desember 1988 og varð 270 manns að bana.

Njósnarinn, sem gekk á mála hjá bandarísku leyniþjónustunni CIA fjórum mánuðum fyrir tilræðið, er álitinn lykilvitni réttarhaldsins, sem fram fer eftir áralangan undirbúning að skozkum lögum í fyrrverandi NATO-herstöð í Zeist í Hollandi, og er búizt við því að yfirheyrslurnar yfir honum muni taka nokkra daga.

Vitnið, sem fyrir réttinum var sagt heita Abdul Majid Abdul Razkaz Abdul-Salam Giaka, sagðist hafa verið gert út af líbýsku leyniþjónustunni til að starfa sem aðstoðarútibússtjóri Libyan Arab Arilines á Luqa-flugvelli á Möltu.

Tíu kíló af TNT

Bar vitnið að árið 1986 hefði Al-Amin Khalifa Fhimah, yfirmaður sinn á flugvellinum, sýnt sér hvað geymt var í tveimur skúffum inni á skrifstofu á flugvellinum. Þar hefði gefið að líta tvö box með "gulleitu efni" í hleifum, innpökkuðu í plast, og knippi af "hraðfarangurs"-merkimiðum.

"Hann sagði mér að hann hefði þarna tíu kíló af TNT," sagði Majid Giaka. Efnið hefði Abdel Basset Ali al-Megrahi, hinn sakborningurinn í réttarhaldinu, sent sér.

Þeir al-Megrahi og Fhimah eru ákærðir fyrir að hafa komið Semtex-sprengiefni ásamt tímastilli fyrir í Toshiba-útvarpstæki, sem síðan hafi verið sent í Samsonite-ferðatösku í Air Malta-flugvél frá Möltu til Frankfurt í Þýzkalandi, með beiðni um að taskan yrði sett um borð í PanAm-flug 103 til New York á Heathrow-flugvelli við Lundúnir.

Majid Giaka flúði til Bandaríkjanna árið 1991 og býr þar nú undir fölsku nafni. Miklar öryggisráðstafanir eru viðhafðar við vitnaleiðslurnar. Vitnastúkan sem Majid situr í við réttarhaldið er ógegnsæ og brynvarin. Rödd hans var að auki breytt í hátalarakerfinu sem blaðamenn og áheyrendur hafa aðgang að til að fylgjast með réttarhaldinu.

Camp Zeist. AFP, AP.