FLUGLEIÐIR, Eimskip og TölvuMyndir hyggjast stofna nýtt fyrirtæki í rekstrarþjónustu upplýsingakerfa.

FLUGLEIÐIR, Eimskip og TölvuMyndir hyggjast stofna nýtt fyrirtæki í rekstrarþjónustu upplýsingakerfa. Tölvurekstrardeildir Eimskips og Flugleiða og Skyggnir, dótturfélag Tölvumynda, munu renna inn í hið nýja fyrirtæki sem stefnt er að að taki til starfa um næstu áramót. Hið nýja fyrirtæki mun bjóða þjónustu sína á almennum markaði.

Í fréttatilkynningu frá fyrirtækjunum segir að erlendis færist það sífellt í vöxt að þjónustufyrirtækjum sé falin heildarábyrgð á rekstri upplýsingakerfa. Slík fyrirtæki taka einnig að sér umsjón með hugbúnaði með því að selja eða leigja notkun hans til viðskiptavina sinna. Eftir því sem starfsemi fyrirtækja verður háðari góðum upplýsingakerfum verður góð notendaþjónusta sífellt mikilvægari.

Í fréttatilkynningu segir að með sameiningu tölvurekstrardeildanna verði sett á fót eitt stærsta fyrirtæki í rekstri upplýsingakerfa hér á landi, með um 45-50 starfsmenn. Starfsmönnum deildanna verður boðið starf í hinu nýja félagi. Samkvæmt fréttatilkynningunni mun styrkur hins nýja félags liggja í reyndum starfsmönnum með breiðan þekkingargrunn og í góðum viðskiptamannahóp.