UM sex þúsund ferðamenn hafa nýtt sér ferðir farþegaferjunnar Lagarfljótsormsins í sumar, að sögn Sigurðar Ananíussonar, framkvæmdastjóra reksturs ferjunnar, en hún hóf áætlunarferðir um Lagarfljótið í sumar í byrjun júní.

UM sex þúsund ferðamenn hafa nýtt sér ferðir farþegaferjunnar Lagarfljótsormsins í sumar, að sögn Sigurðar Ananíussonar, framkvæmdastjóra reksturs ferjunnar, en hún hóf áætlunarferðir um Lagarfljótið í sumar í byrjun júní. Sigurður segir í samtali við Morgunblaðið að rekstur ferjunnar gangi ágætlega og telur að hún sé komin til að vera þótt enn sé ekki búið að greiða niður stofnkostnað rekstursins.

"Það er spurning um að reksturinn þrauki áfram í þrjú til fjögur ár í viðbót en þá hefur væntanlega náðst að greiða niður stofnkostnaðinn."

Áætlunarferðir Lagarfljótsormsins um fljótið hófust 1999 en það sumar nýttu um átta þúsund ferðamenn sér ferðir ferjunnar. Ástæðan fyrir því að um 2.000 færri ferðamenn fóru með ferjunni í sumar en í fyrra segir Sigurður vera þá að í júnímánuði hafi verið fremur kalt í veðri á Austurlandi en einnig segir hann að verkfall bifreiðastjórafélagsins Sleipnis í sumar hafi spilað þarna stórt hlutverk. Vel hafi þó gengið að fá ferðamenn til að nýta sér ferjuna í ágústmánuði. Gert er ráð fyrir því að áætlunarferðir Lagarfljótsormsins í sumar leggist af um mánaðamótin en eftir þann tíma verður hægt að leigja bátinn.