VISA Ísland sendi fyrir mistök út um 15.000 ranga Visa-reikninga í gær.

VISA Ísland sendi fyrir mistök út um 15.000 ranga Visa-reikninga í gær. Reikningarnir voru fyrir úttekt á kortum í síðasta mánuði og uppgötvuðust mistökin ekki fyrr en reikningar höfðu verið sendir til korthafa í Hafnarfirði með póstnúmer 220 og þeirra sem hafa póstnúmer þar fyrir ofan.

Halldór Guðbjarnason, forstjóri Visa-Ísland, sagðist í viðtali við Morgunblaðið harma þessi mistök. "Þetta voru mannleg mistök og við munum bregðast skjótt við og senda rétta reikninga og afsökunarbréf með," sagði hann. Halldór segir að um sé að ræða sjöunda hlut allra korthafa hjá fyrirtækinu og aðeins hafi verið um að ræða gíróseðla, en ekki reikninga sem eru skuldfærðir um mánaðamót. Hann telur þess vegna ekki líklegt að nokkur hafi þegar greitt rangan gíróseðil, en hafi slíkt gerst muni Visa að sjálfsögðu leiðrétta það jafnskjótt.

"Margir korthafar uppgötvuðu strax að reikningarnir voru eitthvað skrýtnir," sagði Halldór. "Eflaust hafa þó einhverjir andað léttar fyrst í stað og aðrir orðið mjög þungbúnir."