Miklar rannsóknir hafa farið fram síðustu ár á fornleifum í Reykholti í Borgarfirði. Þær verða  kynntar á menningarminjadögum um helgina.
Miklar rannsóknir hafa farið fram síðustu ár á fornleifum í Reykholti í Borgarfirði. Þær verða kynntar á menningarminjadögum um helgina.
MARGRÉT Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður telur að ákvörðun Alþingis í sumar um að stofna kristnihátíðarsjóð eigi eftir að efla verulega fornleifarannsóknir og fornleifavörslu á Íslandi.

MARGRÉT Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður telur að ákvörðun Alþingis í sumar um að stofna kristnihátíðarsjóð eigi eftir að efla verulega fornleifarannsóknir og fornleifavörslu á Íslandi. Um helgina verða haldnir menningarminjadagar um allt land í tengslum við menningarminjadag Evrópu. Hér á landi verður á þessum dögum beint sjónum að merkustu sögustöðum Íslands en fyrirhugað er að fjármagn úr kristnihátíðarsjóði verði m.a. varið í fornleifarannsóknir á þeim.

Þetta er í annað sinn sem haldið er upp á menningarminjadag Evrópu hér á landi. Margrét sagði að á þessum degi vildi Þjóðminjasafnið leggja áherslu á það fjölbreytta starf sem unnið væri í fornleifavörslu um allt land. Það væri mikil gróska í þessu starfi og miklar vonir væru bundnar við að það fjárframlag til rannsókna í fornleifafræði sem Alþingi hefði ákveðið að efna til með stofnun kristnihátíðarsjóðs ætti eftir að virka sem hvatning á þessu sviði. Eins væru miklar vonir bundnar við fyrirhugaða kennslu í fornleifafræði við Háskóla Íslands.

Í þingsályktunartillögu Alþingis, sem þingmenn samþykku á hátíðarfundi á Þingvöllum í sumar, voru sérstaklega nefndir sögustaðirnar Hólar, Skálholt og Þingvellir. Margrét sagði að Alþingi kæmi til með að fjalla frekar um útfærslu á þessari tillögu í vetur en Þjóðminjasafnið vildi á menningarminjadögum leitast við að virkja almenning til þátttöku með fræðslu og umræðu. Þetta væri liður í þeim undirbúningi sem fram færi áður en rannsóknirnar hæfust.

Margrét sagði að söfn um allt land yrðu opin um helgina en sérstök dagskrá yrði í Reykholti í Borgarfirði, Hólum í Hjaltadal, Gásum í Eyjafirði, Skriðuklaustri á Héraði og á Þingvöllum. Minjaverðir og fræðimenn frá Þjóðminjasafninu ásamt heimamönnum og staðarhöldurum á hverjum stað myndu miðla af þekkingu og ræða framtíðarrannsóknir.

Einnig yrði vakin athygli á byggða- og minjasöfnum í hverjum landsfjórðungi og merkum minjastöðum.

Fjölbreytt dagskrá um allt land

Í Reykholti verður dagskráin á laugardag og mun Guðrún

Sveinbjarnardóttir, fornleifafræðingur Þjóðminjasafns Íslands, lýsa rannsóknum í Reykholti og Magnús Á. Sigurðsson, minjavörður Þjóðminjasafns Íslands á Vesturlandi, kynnir starfssvið sitt og helstu verkefni á svæðinu.

Dagskráin ber upp á dag Snorra Sturlusonar og verður því bæði fjallað sérstaklega um Snorra og tíð hans í Reykholti og um framhald rannsókna á staðnum.

Á Hólum verður dagskrá í umsjá Hólamanna á sunnudag þar sem Árni Daníel Júlíusson sagnfræðingur, Katrín Gunnarsdóttir fornleifafræðingur, Þór Hjaltalín, sagnfræðingur hjá Þjóðminjasafni Íslands, og Sigurður Bergsteinsson, nýskipaður minjavörður Þjóðminjasafns Íslands á Norðurlandi vestra, munu flytja erindi og svara fyrirspurnum.

Farið verður í skoðunarferð að Gásum í Eyjafirði frá Minjasafninu á

Akureyri en Margrét sagði að Gásar væru einstakir í íslenskri sögu og afar merkilegir séð frá sjónarhóli fornleifafræðinnar.

Á Skriðuklaustri verður dagskrá á vegum Gunnarsstofnunar á laugardag í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands og Minjasafn Austurlands, þar sem flutt verða erindi með leiðsögn. Þar verða frummælendur Helgi Hallgrímsson náttúrufræðingur, Steinunn Kristjánsdóttir fornleifafræðingur, Guðný Zoëga, minjavörður Þjóðminjasafns Íslands á Austurlandi, Friðrika Marteinsdóttir jarðfræðingur, Svanhildur Óskarsdóttir norrænufræðingur og Skúli Björn Gunnarsson, forstöðumaður Gunnarsstofnunar.

Þá mun Þjóðminjasafnið skipuleggja ferð til Þingvalla nk. laugardag í samvinnu við Þingvallanefnd og félagið "Minjar og saga". Þar munu flytja erindi Sigurður Líndal prófessor og sagnfræðingur og fornleifafræðingarnir Guðmundur Ólafsson og Orri Vésteinsson. Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður tekur og þátt í umræðum og ræðir um stefnumótun í fornleifarannsóknum á Þingvöllum.