Guðrún Þóra Hjaltadóttir
Guðrún Þóra Hjaltadóttir
TÍSKAN breytist, ekki eingöngu hvað útlitið varðar heldur einnig hvað varðar þrif á fötunum okkar. Innan í nær öllum fötum eru upplýsingar um hvaða efni er í flíkinni og einnig hvernig eigi að meðhöndla flíkina.

TÍSKAN breytist, ekki eingöngu hvað útlitið varðar heldur einnig hvað varðar þrif á fötunum okkar. Innan í nær öllum fötum eru upplýsingar um hvaða efni er í flíkinni og einnig hvernig eigi að meðhöndla flíkina.

Þessar merkingar eru mjög nauðsynlegar til þess að við getum þvegið eða látið hreinsa flíkina.

Nú á síðustu tímum hefur verið mikið um að ekki megi þvo né hreinsa flíkina en stundum má strjúka yfir flíkina með rökum klút.

Flíkur sem ekki má þvo eða hreinsa geta því alveg orðið einnota flík, það er að segja ef við missum eitthvað ofan á okkur eða á einhvern hátt fáum blett sem ekki má strjúka eða kroppa úr.

Það gæti verið að tískan í framtíðinni yrði sú að einungis ætti að nota föt einu sinni og þá væri þeim fleygt, eins og flestum öðrum umbúðum, en höfum við efni á því? Þá er ég ekki einungis að hugsa um peningana (því margir Íslendingar virðast eiga nóg af þeim) heldur umhverfislega séð. Meiru verður hent og að sjálfsöðu verður þar af leiðandi meira framleitt, það er ekki hægt að búast við því að Íslendingurinn læri nokkurn tímann að "nýta vel" og spara.

Þessi "merkilegu" einnota föt fást í mörgum verslunum, jafnvel "betri" búðum og þessar vörur seljast. Því að sjálfsögðu ræður lögmálið að það sem hægt er að selja höldum við áfram að framleiða til að geta grætt nógu mikið.

Gæti það verið að þú lesandi góður vissir ekki af þessari merkingu á fötunum sem þú eða hitt heimilisfólkið er að kaupa?

Oft er það þannig að ekki er litið á þessar merkingar fyrr en flíkin er orðin óhrein og þá jafnvel farið með hana í hreinsun, þeir í hreinsuninni vita vel hvað má og hvað má ekki. Flíkina má ekki hreinsa né þvo og þú, lesandi góður, keyptir þér flík fyrir dágóða upphæð, segjum 16 til 18 þúsund krónur og þú varst svo mikill "kjáni" að þú keyptir einnota flík.

Það hefur dregið úr heimilisfræðikennslu undanfarin ár en neytendafræðsla hefur verið kennd í heimilisfræðitímunum. Verklegum kennslustundum hefur fækkað enda er íslenska þjóðin svo ánægð með allt sem hún getur og kann að óþarfi sé að hafa jafnnauðsynlega kennslu í grunnskólum landsins. Nútíma Íslendingur sækir þetta bara á Netið.

Eins og ein virt kona sagði fyrir fáum árum "að óþarfi væri að kenna börnum að stoppa í sokkana sína þar sem ódýrara væri að fara í Bónus og kaupa þá".

Leiðbeiningastöð heimilanna hefur gefið út þvottaspjald með öllum þessum táknum á sem gott væri að til væri á hverju heimili. Þau fást hjá Leiðbeiningastöðinni Túngötu 14 og hjá betri verslunum sem selja þvottavélar.

GUÐRÚN ÞÓRA

HJALTADÓTTIR,

Kvenfélagasambandi Íslands,

Túngötu 14, Reykjavík.

Frá Guðrúnu Þóru Hjaltadóttur:

Höf.: Guðrúnu Þóru Hjaltadóttur