MORGUNBLAÐINU hefur borist eftirfarandi yfirlýsing frá Haraldi Briem, sóttvarnalækni, Landlæknisembættinu, Grími Ólafssyni, Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur og Sjöfn Sigurgísladóttur, Hollustuvernd ríkisins: "Vegna fjölmiðlaumræðu um að Dole...

MORGUNBLAÐINU hefur borist eftirfarandi yfirlýsing frá Haraldi Briem, sóttvarnalækni, Landlæknisembættinu, Grími Ólafssyni, Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur og Sjöfn Sigurgísladóttur, Hollustuvernd ríkisins:

"Vegna fjölmiðlaumræðu um að Dole ísbergsalat sem flutt var inn til landsins í lok ágústmánaðar hafi valdið faraldri af Salmonella typhimurium skal eftirfarandi tekið fram:

Hinn 16. september sl. stöðvaði Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur dreifingu og innkallaði þegar selda vöru af Dole salati vegna rökstudds gruns um að Dole ísbergsalat, sem kom til landsins 24. ágúst og fór í dreifingu 26. ágúst, hafi verið mengað af Salmonella typhimurium fjölónæmum stofni. Þegar þessi ákvörðun var tekin lágu eftirfarandi staðreyndir máls fyrir:

Fullvíst var talið að sýkillinn eigi ekki uppruna sinn hér á landi vegna sérkenna hans. Faraldurinn hófst um mánaðamótin ágúst/september. Þróun faraldursins benti til þess að hann hafi átt uppruna sinn í mengaðri matvöru á markaði í lok ágústs og fyrstu vikuna í september. Ítarlegar spurningar, sem lagðar voru fyrir þá sem sýktust, leiddu í ljós að matarneysla á skyndibitastöðum og veitingahúsum væri sameiginleg flestum þeirra sem höfðu sýkst. Sá matur sem neytt var og var sameiginlegur flestum sjúklingum var salat. Þegar gripið var til áðurnefndrar innköllunar höfðu flestir nefnt til sögunnar tvo veitingastaði þar sem matar var neytt í byrjun september. Hægt var að gera samanburðarrannsókn á neyslu þeirra sem veiktust og veiktust ekki á öðrum þessara veitingastaða hjá hópi manna sem borðaði þar á sama tíma. Leiddi sú rannsókn í ljós tölfræðilega marktækt samband veikinda og neyslu á ísbergsalati. Þegar í ljós kom að hinn veitingastaðurinn, sem oftast var nefndur til sögunnar af sjúklingum, hafði notað ísbergsalat úr sömu sendingu samkvæmt upplýsingum dreifingaraðilans var gripið til áðurnefndrar innköllunar.

Þar sem geymsluþol á matvörumakaði er stutt voru líkurnar á því að finna salat af sama toga og tengdist sýkingunni litlar. Veitingahús, skyndibitastaðir og verslanir sem notað höfðu ísbergsalat í byrjun september áttu það ekki lengur til þegar ákvöðun um innköllun var tekin. Hins vegar fundust nokkur salathöfuð í heimahúsum bæði af bandarískum og evrópskum uppruna. Ekki var vitað hvort þau væru úr sömu sendingu eða hluta úr þeirri sendingu sem gat verið mengaður. Ræktunarniðurstöður hafa ekki leitt í ljós salmonellumengun í þeim.

Síðar hefur komið ljós að önnur sending af ísbergsalati, sem er ekki frá Dole, hafi verið send til prufu á sömu tvo veitingastaði og áður voru nefndir á svipuðum tíma. Verið er að kanna útbreiðslu þess salats en það er erfiðleikum háð vegna þess að það var gefið en ekki selt og því ekki til neinar sölunótur. Fullvíst er talið að þetta salat sé farið úr umferð fyrir all nokkru.

Niðurstaðan er því á þessari stundu að neysla mengaðs ísbergsalats sé líklegasta orsök faraldursins. Líkurnar á því að sanna það með ótvíræðum hætti, með ræktun frá salatinu sem var í umferð í byrjun september sl., eru hverfandi. Því verður ekki fullyrt að mengað Dole salat hafi verið orsök þessa faraldurs. Rannsókn málsins heldur áfram og engir möguleikar á mengun matvæla útilokaðir. Eins og áður segir er hér um mjög sérstæða salmonellu að ræða. Hennar hefur einnig orðið vart sumstaðar á Englandi um þessar mundir. Eru vonir bundnar við að alþjóðleg samvinna varpi ljósi á þetta mál."