NETTÓSKULDIR Reykjavíkurborgar jukust um 889 milljónir milli áranna 1999 og 2000, að því er fram kemur í svari borgarendurskoðanda við fyrirspurn Júlíusar Vífils Ingvarssonar, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks, um skuldastöðu borgarinnar.

NETTÓSKULDIR Reykjavíkurborgar jukust um 889 milljónir milli áranna 1999 og 2000, að því er fram kemur í svari borgarendurskoðanda við fyrirspurn Júlíusar Vífils Ingvarssonar, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks, um skuldastöðu borgarinnar.

Júlíus Vífill segir í samtali við Morgunblaðið að hann telji gagnrýnivert að fjárhagsáætlun skuli hafa verið afgreidd án þess að fram hafi komið hver þróun nettóskulda borgarinnar er.

"Skuldastaða borgarinnar hefur verið í mjög alvarlegu hámarki. Það er ekki nóg að líta aðeins til borgarsjóðs því aðrar stofnanir borgarinnar, einkum Orkuveita Reykjavíkur, hafa verið notaðar til að greiða niður skuldir borgarsjóðs svo hægt sé að bera á borð fyrir kjósendur að borgarsjóður standi betur en áður. Það er vissulega rétt, en hins vegar stendur Reykjavíkurborg miklu verr," segir Júlíus Vífill.

Fólki talin trú um að fjárhagsstaðan sé betri en hún er

Hann segir að þessa stöðu megi að mestu leyti rekja til þess að eiginfjárstaða borgarinnar hafi verið rýrð og fyrirtæki skuldsett til að greiða niður skuldir. Orkuveita Reykjavíkur hafi verið látin gefa út skuldabréf upp á þrjá milljarða króna, sem notaðir hafa verið til að greiða niður skuldir borgarsjóðs.

"Þetta er ekkert annað en bókhaldsblekking og gert til þess að geta talið fólki trú um að fjárhagsleg staða Reykjavíkurborgar sé sterkari en hún raunverulega er," segir Júlíus Vífill.

Hann segir sérlega athugavert að skuldastaða borgarinnar skuli versna þetta mikið í góðæri, þegar flestir séu að reyna að grípa tækifærið og koma fjárhag sínum í gott lag. Þar að auki hafi tekjur borgarinnar aukist mikið, útsvar og gjaldskrár hafi hækkað og eignir verið seldar, þar á meðal Sjúkrahús Reykjavíkur fyrir einn og hálfan milljarð króna.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri segir í samtali við Morgunblaðið að svar borgarendurskoðanda hafi verið lagt fram í borgarráði og í því séu engar nýjar upplýsingar. Það hafi legið fyrir við gerð fjárhagsáætlunar að nettóskuldir borgarinnar í heild, borgarsjóðs og fyrirtækja, hefðu aukist um tæplega 900 milljónir.

"Þessi umræða um hvort skuldir séu að hækka eða lækka er sígild og kemur upp tvisvar á ári hér í borgarstjórn Reykjavíkur, í kringum fjárhagsáætlun og ársreikning. En staðreyndin er sú að það þarf ekkert að deila um þetta, skuldir borgarsjóðs eru að lækka og skuldir fyrirtækjanna hafa verið að hækka," segir Ingibjörg Sólrún.

Hún segir að staða þeirra tveggja aðila sem vega þyngst í fjármálum borgarinnar, borgarsjóðs og Orkuveitu Reykjavíkur, hafi legið ljós fyrir þegar fjárhagsáætlun var gerð. Bæði hafi verið ljóst að skuldir borgarsjóðs hefðu lækkað, meðal annars vegna niðurfærslu á eigin fé Orkuveitu Reykjavíkur og sölu á Sjúkrahúsi Reykjavíkur, og eins hafi legið fyrir að skuldir Orkuveitunnar væru að aukast, meðal annars vegna fyrrnefndrar niðurfærslu á eigin fé og vegna fjárfestinga á Nesjavöllum. Hún tekur jafnframt fram að Orkuveitan sé eftir sem áður afar stöndugt fyrirtæki og að fjárfestingarnar á Nesjavöllum séu mjög arðbærar og eigi eftir að skila Orkuveitunni og viðskiptavinum hennar ávinningi á komandi árum.