Vladimiro Montesinos, fyrrverandi yfirmaður leyniþjónustu Perú.
Vladimiro Montesinos, fyrrverandi yfirmaður leyniþjónustu Perú.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
STJÓRN Panama kvaðst í gær vera að íhuga beiðni Vladimiros Montesinos, fyrrverandi yfirmanns leyniþjónustu Perú, um að hann fengi hæli í landinu.

STJÓRN Panama kvaðst í gær vera að íhuga beiðni Vladimiros Montesinos, fyrrverandi yfirmanns leyniþjónustu Perú, um að hann fengi hæli í landinu. Montesinos flúði til Panama á sunnudag og utanríkisráðherra landsins sagði að ákveðið hefði verið að veita honum dvalarleyfi til bráðabirgða þar sem her Perú hefði ætlað að taka völdin í sínar hendur ef njósnaforingjanum yrði vísað frá Panama.

Montesinos fór með flugvél til Panamaborgar á sunnudagsmorgun þótt stjórn Panama hefði hafnað beiðni hans um hæli daginn áður. Stjórnin ákvað þó á sunnudag að veita njósnaforingjanum fyrrverandi dvalarleyfi sem ferðamanni í allt að tvo mánuði vegna þrýstings annarra ríkja í Rómönsku Ameríku.

Samtök Ameríkuríkja hafa lagt fast að stjórn Panama að verða við beiðni Montesinos til að auðvelda Perúmönnum að vinna sig út úr þeirri pólitísku kreppu sem ríkt hefur í landinu eftir að njósnaforinginn fyrrverandi var staðinn að því að múta þingmönnum stjórnarandstöðunnar. Mútumálið varð til þess að Alberto Fujimori, forseti Perú, tilkynnti fyrr í mánuðinum að hann hygðist boða til forsetakosninga og ekki sækjast eftir endurkjöri. Þar til mútumálið kom upp var njósnaforinginn hægri hönd forsetans og leiðtogar stjórnarandstöðunnar höfðu lengi sakað Montesinos um að njósna um stjórnarandstæðinga og þvinga þá til að styðja forsetann, auk þess sem hann hefur verið bendlaður við ólöglega vopnasölu til Kólumbíu og eiturlyfjasmyglara. Þá hefur hann verið sakaður um alvarleg mannréttindabrot, m.a. pyntingar og morð, í baráttunni gegn skæruliðum í Perú.

Vildu afstýra valdaráni

Montesinos hefur verið mjög áhrifamikill í her Perú og utanríkisráðherra Panama, José Miguel Aleman, sagði að ákveðið hefði verið að taka beiðni hans um hæli til athugunar að nýju til að afstýra valdaráni. "Við fengum þær upplýsingar frá ýmsum forsetum og utanríkisráðherrum að herinn myndi fremja valdarán á sunnudag ef við gæfum ekki eftir," sagði Aleman. "Við fengum upplýsingar um að hersveitir, sem eru með bækistöðvar við landamærin, hefðu haldið í átt að Lima í dögun á sunnudag."

Utanríkisráðherrann bætti við að sú staðreynd að margir teldu að útlegð Montesinos væri eina leiðin til að tryggja lýðræði í Perú "benti til þess að hann hefði í raun verið leiðtogi landsins".

Margir Panamabúar eru þó andvígir því að Montesinos fái hæli í landinu og segja að litið sé á það sem griðastað fyrir harðstjóra sem önnur ríki Rómönsku Ameríku vilji losna við. Sinecio Jarama, fyrrverandi hershöfðingi í Panama, sagði að bandamenn Montesinos í yfirstjórn Perúhers hefðu komið honum til hjálpar með því að breiða út "skröksögur" um að valdarán væri yfirvofandi.

Fujimori gagnrýndur

Leiðtogar stjórnarandstöðunnar í Perú gagnrýndu Fujimori harkalega fyrir að leyfa Montesinos að flýja land og komast hjá ákæru. Stjórnarandstaðan hafði krafist þess að njósnaforinginn fyrrverandi yrði handtekinn og sóttur til saka. Tveir af þingmönnum stjórnarandstöðunnar fóru til Panama í fyrradag til að freista þess að fá ráðamennina til að hafna beiðni Montesinos.

Fujimori leysti Montesinos formlega frá störfum í fyrradag. Forsetinn kvaðst hafa fallist á "afsögn" njósnaforingjans fyrrverandi og fór lofsamlegum orðum um þátt hans í baráttunni gegn eiturlyfjum og vinstrisinnuðum skæruliðum.

Fjölmiðlar í Panama sögðu að Montesinos dveldi í fjölbýlishúsi í Panamaborg undir vernd öryggisvarða forsetaembættisins. Varaforseti þingsins í Panama, Teresa de Arias, sagði að hætta stafaði af dvöl Montesinos í landinu þar sem hugsanlega yrði reynt að ráða hann af dögum með sprengjutilræðum.

Stjórnvöld í Panama hafa veitt nokkrum erlendum leiðtogum hæli í landinu frá árinu 1979 þegar fyrrverandi keisara Írans var leyft að dvelja þar að beiðni Bandaríkjastjórnar eftir íslömsku byltinguna. Jorge Serrano Elias, fyrrverandi forseti Guatemala, fékk einnig hæli í Panama árið 1993 þegar hann var grunaður um að hafa hlaupist á brott með opinbera sjóði. Ári síðar varð Panama griðastaður leiðtoga herforingjastjórnarinnar á Haiti, Raoul Cedras og Phillipe Biamby, sem steyptu Jean-Bertrand Aristide forseta árið 1991.

Panamaborg. Reuters, AP, AFP.

Höf.: Panamaborg. Reuters, AP, AFP