Sólveig Pétursdóttir dómsmálaráðherra heimsótti í gær þjálfunarmiðstöð dómara í Vilnius ásamt Gintaras Balciunas, dómsmálaráðherra Litháen.
Sólveig Pétursdóttir dómsmálaráðherra heimsótti í gær þjálfunarmiðstöð dómara í Vilnius ásamt Gintaras Balciunas, dómsmálaráðherra Litháen.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Opinber heimsókn Sólveigar Pétursdóttur dómsmálaráðherra til Litháen hélt áfram í gær. Sunna Ósk Logadóttir fylgist með heimsókninni sem lýkur í dag með undirritun samstarfssamnings landanna.

ÞAÐ var mildur og sólríkur haustdagur í Vilnius, höfuðborg Litháens, þegar Sólveig Pétursdóttir dómsmálaráðherra hóf annan dag opinberrar heimsóknar sinnar til landsins í boði dómsmálaráðherrans Gintaras Balciunas. Heimsóknin er í framhaldi af fundi dómsmálaráðherra Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna sem haldinn var á Íslandi fyrir ári er þar var ákveðið að ráðherrarnir myndu hittast reglulega til að skiptast á hagnýtum upplýsingum.

Heimsókn í þinghúsið

Dagurinn hófst á heimsókn í þinghúsið í fylgd gestgjafans en með Sólveigu í för eru Ingvi Hrafn Óskarsson, ráðgjafi hennar, og Björn Friðfinnsson, ráðuneytisstjóri dómsmálaráðuneytisins. Eftir að skoða innviði þinghússins sýndi ráðherrann íslensku gestunum minnisvarða fyrir utan húsið um þá sem féllu í sjálfstæðisbaráttu landsins fyrir rúmum tíu árum en alls létu þrettán Litháar þá lífið. Þar mátti einnig sjá skjöld með þakklæti til íslensku þjóðarinnar. ,,Það var mjög áhrifamikið að koma í þingið og sjá leifar af vírgirðingu sem sett var þar upp til varnar Rússum," segir Sólveig. "Sjálfstæðisbaráttan er þjóðinni greinilega enn í fersku minni."

Eftir heimsóknina í þinghúsið var farið í héraðsdóm í bænum Molétai skammt frá Vilnius. Þar er sérstök þjálfunarmiðstöð dómara til húsa. Á fundi sem dómsmálaráðherrarnir tveir áttu með þeim dómurum sem fá nú þjálfun í miðstöðinni kom m.a. fram að dómararnir telja sjálfstæði dómsvaldsins ekki tryggt. Laun dómara eru mjög lág og fáir dómstólar eru enn tölvuvæddir en í miðstöðinni fá dómarar m.a. þjálfun í tölvunotkun. Er fundinum lauk sýndi Björn Friðfinnsson dómurunum íslenska Stjórnarráðsvefinn og Alþingisvefinn og útskýrði uppbyggingu þeirra.

Að heimsókninni lokinni snæddu íslensku gestirnir hádegisverð með litháenska dómsmálaráðherranum og forseta héraðsdómsins. Þá var haldið aftur til Vilnius og var ferðinni heitið í KGB-safnið í borginni. Á þessari öld hafa Litháar tvívegis verið undir stjórn Rússa og þar á milli á valdi nasista. Húsið sem hýsir safnið var á árum áður bæði miðstöð Gestapo og KGB og á það sér því átakanlega sögu. Í máli og myndum fengu íslensku gestirnir að heyra um hroðalega meðferð fanga í kjallara hússins allt fram undir lok þessarar aldar.

Samstarfssamningur undirritaður

Deginum lauk með skoðunarferð um elsta hluta Vilnius og varð íslensku gestunum ljóst að andi komandi þingkosninga svífur yfir vötnum. Hvarvetna um borgina hanga auglýsingspjöld frambjóðendanna sem allir sem einn, óháð stjórnmálaflokki, lofa að beita sér fyrir inngöngu í Atlantshafsbandalagið og Evrópusambandið.

"Þessi heimsókn hefur verið ánægjuleg í alla staði," sagði Sólveig í gær. "Við höfum fengið hlýlegar móttökur og það er ljóst að Litháar eru mjög þakklátir fyrir það frumkvæði sem Íslendingar sýndu er þeir viðurkenndu sjálfstæði þeirra fyrir tíu árum. Við vorum minnt á söguna í dag er við skoðuðum KGB-safnið þar sem pólitískir fangar sátu, voru pyntaðir og teknir af lífi. Það var sérlega táknrænt að sjá hóp af skólabörnum skoða safnið í þeim tilgangi að minna þau á þessa voveiflegu atburði. Sú heimsókn var sérstaklega áhrifamikil."

Í dag er ætlunin að dómsmálaráðherrarnir skrifi undir sérstaka viljayfirlýsingu þar sem lögð er áhersla á aukið samstarf. "Við viljum gjarnan veita Litháum liðsinni með því að bjóða þeim að senda bæði lögfræðinga og dómara til Íslands til þjálfunar. Við stöndum vel að vígi í okkar réttarkerfi og getum vafalaust aðstoðað þá á margvíslegan hátt."

Á fundi með dómsmálaráðherranum í dag verður samningurinn ræddur og undirritaður og í kjölfar hans haldinn blaðamannafundur með litháenskum fjölmiðlum.