ÁKVEÐIÐ hefur verið að leyfa veiði á 105.000 tonnum af þorski í Eystrasalti á næsta ári. Það er óbreytt frá árinu í ár, en ráðgjafarnefnd Alþjóða hafrannsóknaráðsins lagði til að aðeins yrði leyft að veiða 89.000 tonn.

ÁKVEÐIÐ hefur verið að leyfa veiði á 105.000 tonnum af þorski í Eystrasalti á næsta ári. Það er óbreytt frá árinu í ár, en ráðgjafarnefnd Alþjóða hafrannsóknaráðsins lagði til að aðeins yrði leyft að veiða 89.000 tonn. Samtök sjómanna höfðu hins vegar gert sér vonir um að fá að veiða 115.000 tonn.

Það er fiskveiðiráð Eystrasalts sem ákveður hve mikið megi veiða af helztu nytjategundum. Á næsta ári verður leyfilegt að veiða 353.000 tonn af brislingi, sem er 12% samdráttur. Þá verður leyft að veiða 300.000 tonn af síld, en á þessu ári mátti veiða 400.000 tonn. Loks verður leyft að veiða 455.000 laxa, sem er sami fjöldi og á þessu ári.

Danir fá um fjórðung þorskkvótans eða 26.000 tonn. Bent Rulle, formaður dönsku sjómannasamtakanna, segist vera ánægður með þessa niðurstöðu. "Með þessu móti byggjum við þorskstofninn upp á þremur til fjórum árum, en fiskifræðingarnir vildu gera það á einu til tveimur árum. Slíkur niðurskurður, sem þeir lögðu til, hefði ekki gengið upp: Þá hefðu engir sjómenn verið eftir til að veiða þorskinn, þegar stofninn stækkaði á ný," segir hann í samtali við danska blaðið Fiskeritidende.