MEÐ vaxandi þorskskorti og hækkandi verði hefur áhugi á þorskeldi verið að aukast. Fyrstu eldisþorskarnir í Bretlandi komu á markað þar í landi á síðasta vetri og á sjávarútvegssýningunni Nor-Fishing 2000, sem haldin var í Þrándheimi í ágúst sl., voru þorskeldinu gerð góð skil. Áður höfðu norsk stjórnvöld gengist fyrir rannsókn á möguleikum þess í Noregi og niðurstöðurnar lofa góðu: Þorskeldið er vissulega vandasamt en flest bendir til, að það geti átt sér bjarta framtíð.

NORÐMENN hafa í nokkurn tíma stundað umfangsmiklar rannsóknir á þorskeldi og hafa þær tekið til eldisins sjálfs, hrygningar, klaks og seiðaframleiðslu og einnig skoðað hvernig það kemur út að veiða þorsk og ala hann síðan. Gæði eldisþorsksins hafa líka verið til athugunar og þá ekki síður markaðsmálin.

100.000 seiði á síðasta ári

Seiðin hafa yfirleitt verið alin á átu, ýmist í kvíum, búrum eða í stórum belgjum í sjó eða í tönkum uppi á landi. Var seiðaframleiðsla Norðmanna 100.000 á síðasta ári en hún verið óarðbær til þessa enda miklar sveiflur í henni.

Þrátt fyrir það munu tvær nýjar stöðvar taka til starfa á þessu ári og sú þriðja á því næsta. Enn er þó ekki ljóst hvernig tæknin og sú þekking, sem fengist hefur af eldi annarra tegunda, til dæmis hlýsjávartegunda, mun nýtast í þorskeldinu.

Í Noregi er ekki mikil eftirspurn eða neysla á eldisþorski, aðeins 148 tonn 1998, og það stendur eldinu vissulega fyrir þrifum, að eldisþorskurinn verður kynþroska tveggja ára gamall eða áður en æskilegri sláturþyngd er náð. Þá dregur úr vexti hans og gæðum í nokkurn tíma. Vonast er þó til, að þessu megi stýra með ljósum en án þeirra nær þorskurinn 3,5 kg þyngd á 32 mánuðum eftir klak. Talið er, að með ljósanotkun megi koma þyngdinni í 5,5 kg á sama tíma.

Annar háttur er sá að veiða lifandi fisk á vorin og með þeim aðferðum, sem er beitt við þær veiðar, eru lífslíkur þorsksins miklar. Talið er, að unnt ætti að vera að veiða allt að 10.000 tonn af þorski með eldi í huga.

Sjúkdómar og sníkjudýr

Nokkuð hefur verið um sjúkdóma og sníkjudýr í eldisþorskinum en vísindamenn er vongóðir um, að finna megi lausn á þeim vanda.

Í rauninni er hvergi enn um að ræða eiginlegt þorskeldi en hugsanlega mun það fyrst líta dagsins ljós í Kanada og Skotlandi. Nýfundnalendingar hafa mikla reynslu af því að ala smáan þorsk í kvíum eða nótum og í báðum löndunum hefur náðst góður árangur í klakinu. Talið er, að seiðaframleiðslan í hvoru landi verði um 100.000 á þessu ári og í Kanada er stefnt að því, að hún verði komin í eina milljón 2003 og í tvær milljónir 2005.

Lítið framboð og hátt verð

Það, sem einkennir þorskmarkaðinn nú um stundir, er minnkandi veiði og hátt verð. Inn á þennan markað sækja síðan ýmsar eldistegundir eins og vartari, leirgedda og beitarfiskur. Fyrir norska þorskinn er Evrópumarkaðurinn mikilvægastur og hann verður það vafalaust líka fyrir eldisþorskinn ásamt Bandaríkjunum og Brasilíu. Á markaðinum fyrir eldislax er mest um ferskan fisk en saltfiskur og fryst flök eru mikilvægustu þorskafurðirnar.

Hvað varðar markaðsmálin fyrir eldisþorsk er auðvitað ljóst, að verðið fyrir hann mun fara mikið eftir þorskveiðinni hverju sinni. Hann gæti hins vegar notið þess, að í eldinu er yfirleitt um meiri stöðugleika að ræða en í veiðunum.

Eins og áður segir eru klakið og seiðaframleiðslan í þorskinum enn á tilraunastigi og því er ekki alveg ljóst hvað hvert seiði mun kosta þegar fram í sækir. Það sama má raunar segja um aðra þætti í eldinu og trúlega munu þessi mál ekki skýrast fyrr en eftir nokkur ár. Flest bendir þó til, að kostnaðurinn við þorskeldið verði svipaður og í laxeldinu.

Forsendur fyrir árangursríku þorskeldi eru sagðar þessar í rannsókninni, sem norsk stjórnvöld gengust fyrir:

Að góð tök náist á seiðaframleiðslunni; að unnt verði að stýra hrygningu með ljósum þannig að ávallt verði nægt framboð af þorskseiðum; að þróað verði gott en ódýrt fóður; að komið verði í veg fyrir kynþroska eða honum frestað með ljósanotkun; að gerðar verði fóðrunaráætlanir í því skyni að örva vöxt; að þorskeldið verði á hentugum stöðum; að komið verði á öllum sömu heilbrigðis- og öryggisreglum og nú gilda í laxeldinu og þannig búið um hnútana, að fyrirtæki í þorskeldi geti sameinast og stækkað í takt við kröfur markaðarins.

30.000 tonn eftir 10 ár?

Það skiptir miklu máli, að stórfyrirtæki, sem hafa yfir nægu fjármagni að ráða, fái greiðan aðgang að þorskeldinu enda hafa þau líka mesta getu til að stunda nauðsynlegar rannsóknir og þróa framleiðsluna. Jafnframt er hvatt til, að stjórnvöld greiði fyrir þeim á ýmsan hátt til að byrja með.

Í norsku skýrslunni segir, að takist vel til í þorskeldinu muni það að sjálfsögðu skila sér í aukinni vinnslu innanlands. Sjá skýrsluhöfundar fyrir sér, að eldisþorskframleiðslan verði komi í 30.000 tonn eftir 10 ár og geti hugsanlegt skipt hundruðum þúsunda tonna einhvern tíma í framtíðinni.