Birgir Sumarliðason með 20 punda hæng, 100 sentímetra, austur á Iðu á sunnudaginn.
Birgir Sumarliðason með 20 punda hæng, 100 sentímetra, austur á Iðu á sunnudaginn.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
MOKVEIÐI var á Iðu nú í vikubyrjun, en hópur sem var þá einn og hálfan dag, frá hádegi sunnudags til mánudagskvölds, veiddi 22 laxa á 3 stangir og missti a.m.k. annað eins.

MOKVEIÐI var á Iðu nú í vikubyrjun, en hópur sem var þá einn og hálfan dag, frá hádegi sunnudags til mánudagskvölds, veiddi 22 laxa á 3 stangir og missti a.m.k. annað eins. Flestir voru smálaxar, en einn var 20 pund og tveir til viðbótar rígvænir, 15-16 punda. Nær öll veiðin var tekin á flugu, mest á Snældur og Colly Dog, og flestum var löxunum sleppt aftur, eða 18 fiskum.

Að sögn Birgis Sumarliðasonar sem var að veiðum umræddar vaktir, urðu skilyrði skyndilega einstaklega hagstæð og þar sem lítil veiði hafði verið lengst af í sumar var nú að sjá að lax væri víða á svæðinu og veiddust laxarnir á mjög stóru svæði, allt frá Stóru Laxárkjafti og niður undir Iðubrú. Sagði Birgir að trúlega hefði verið mok á neðstu svæðum Stóru Laxár á sama tíma ef ekki hefði verið hætt veiði þar, því greinilegt hefði verið að fiskur hefði verið að taka sig upp, færa sig efst á svæðið til að ganga í Stóru.

Í veiðibók á Iðu 1 voru aðeins tæplega 70 laxar bókaðir og við þá bættust umræddir 22 laxar. Yfirleitt er talið að handhafendur veiðileyfa fyrir Iðu 2 séu með áþekka veiði og því eru þetta innan við 200 laxar á Iðu í sumar, sem þykir ekki merkileg veiði þar um slóðir, en taka ber fram að skilyrði hafa mjög oft verið erfið í ánni í sumar. Gærdagurinn var lokadagur á svæðinu.

Stórir birtingar

Fín veiði hefur verið í Hörgsá á Síðu í september, um helgina voru komnir um 60 í veiðibók og margir þeirra stórir. Á laugardag veiddist t.d. 10 punda fiskur og á föstudaginn 11 pundari. 14 punda er stærsti fiskurinn í haustveiðinni, en í vor veiddust þar bæði 17 og 15 punda fiskar. Vatn er í meira lagi eftir rysjótta tíð og fyrir vikið er fiskur víðar á svæðinu en oft áður. Einkum er talsvert af fiski í hyljum númer 3, 5, 6 og 8, en fiska má finna víðar ef grannt er leitað. Nokkrir laxar hafa drýgt aflann, 4-5 stykki, en mönnum þykir vera misjafnlega mikill fengur í legnum laxi þegar egnt er fyrir sjóbirting.