Lögregla í Prag heldur mótmælendum frá fundarstað Alþjóðabankans og IMF.
Lögregla í Prag heldur mótmælendum frá fundarstað Alþjóðabankans og IMF.
ÓEIRÐIR skyggðu á setningu árlegs fundar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) og Alþjóðabankans (World Bank) í Prag, höfuðborg Tékklands, í gær. Að sögn lögreglu tóku um 5.

ÓEIRÐIR skyggðu á setningu árlegs fundar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) og Alþjóðabankans (World Bank) í Prag, höfuðborg Tékklands, í gær. Að sögn lögreglu tóku um 5.000 manns þátt í mótmælunum og grýttu svartklæddir mótmælaseggir lögreglu með bensínsprengjum og götusteinum.

Aðgerðirnar voru þær ofbeldisfyllstu sem komið hefur til í tengslum við fundinn og kviknaði í klæðnaði nokkurra lögreglumanna er bensínsprengja sprakk. Að sögn yfirvalda í Tékklandi hafa hátt í 70 manns særst í átökunum, sem áttu sér stað í nágrenni ráðstefnumiðstöðvarinnar sem hýsir fund IMF og Alþjóðabankans og hefur lögregla haldið aftur af mótmælendum með táragasi, vatnsflaumi og höggbylgju-handsprengjum.

Ekki tóku þó allir þátt í óeirðunum og mótmæltu sumir á friðsamari máta, m.a. með skiltum með áletrunum á borð við "Heimur okkar er ekki til sölu" og aðrir kyrjuðu: "Opnið landamærin, eyðileggið IMF".

Trevor Manuel, fjármálaráðherra Suður-Afríku og fundarstjóri, taldi miður að mótmælaaðgerðirnar hefðu þróast í óeirðir þó að hans mati væri óljóst hverju var verið að mótmæla.

Alþjóðavæðing ekki afturkallanleg

Fjármálaleiðtogar heimsins vöruðu þá, að sögn AP-fréttastofunnar, við að það væri tilgangslaust að reyna að afturkalla alþjóðavæðingu. Að sögn James Wolfensohn, bankastjóra Alþjóðabankans, eiga bæði Alþjóðabankinn og IMF þó enn ýmislegt ólært um hvernig best megi berjast gegn fátækt.

"Utan þessara veggja er ungt fólk að mótmæla alþjóðavæðingu," sagði Wolfensohn í opnunarræðunni. "Ég trúi því sannarlega að margt þess sé að spyrja góðra og gildra spurninga og ég fagna fylgni þessarar kynslóðar í baráttunni gegn fátækt."

Prag. AP, Reuters.