ÍBÚAR Kristjaníu, svokallaðs fríríkis í Kaupmannahöfn, hyggjast ekki leggja niður eigin gjaldmiðil hver svo sem úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar um aðild að evrópska myntbandalaginu verða.

ÍBÚAR Kristjaníu, svokallaðs fríríkis í Kaupmannahöfn, hyggjast ekki leggja niður eigin gjaldmiðil hver svo sem úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar um aðild að evrópska myntbandalaginu verða. Gjaldmiðillinn løn (laun) var tekinn í notkun í Kristjaníu árið 1998 og greiði Danir evrunni atkvæði sitt, verður gengi launanna 7,7 á móti evrunni, að því er einn íbúanna fullyrðir í samtali við Reuters-fréttastofuna.

Hippar settust fyrst að í Kristjaníu, þar sem danski herinn hafði áður aðsetur, árið 1971 og reyndust tilraunir danskra yfirvalda til að reka þá á brott árangurslausar. Þau gáfust að endingu upp og viðurkenna yfirráðarétt íbúanna á svæðinu, en Kristjanía er einn vinsælasti áfangastaður ferðamanna sem leggja leið sína til Kaupmannahafnar.

Ein laun samsvara 500 íslenskum krónum, eða tímalaunum í Kristjaníu. Laun eru mynt með snigli á annarri hliðinni sem á að tákna hversu rólegir í tíðinni íbúarnir eru. Á hinni hliðinni er konuhöfuð undir yfirskriftinni Lifðu lífinu lifandi.

Íbúar Kristjaníu eru yfirlýstir andstæðingar evrunnar og til marks um það er borði sem strengdur hefur verið yfir aðalútgangi fríríkisins en þar stendur: Þú ferð nú inn í ESB.

Aðrir íbúar Danmerkur eru ekki eins eindregnir í afstöðu sinni og sýna skoðanakannanir síðustu daga að mjög dregur saman með andstæðingum og fylgismönnum aðildar þó þeir fyrrnefndu séu enn í meirihluta.

Þjóðaratkvæðagreiðslan um evruna fer þó fram á morgun og eru leiðtogar danskra stjórnmálaflokka ekki á einu máli um hvort kjósa skuli á ný um aðild að evrópska myntbandalaginu að nokkrum árum liðnum, hafni Danir evrunni í þessum kosningum.

Kaupmannahöfn. Morgunblaðið.