HÆSTIRÉTTUR Bandaríkjanna úrskurðaði í gær hugbúnaðarfyrirtækinu Microsoft í hag, er dómstóll neitaði að fallast á að málaferli gegn fyrirtækinu hlytu flýtimeðferð fyrir rétti.

HÆSTIRÉTTUR Bandaríkjanna úrskurðaði í gær hugbúnaðarfyrirtækinu Microsoft í hag, er dómstóll neitaði að fallast á að málaferli gegn fyrirtækinu hlytu flýtimeðferð fyrir rétti.

Felur ákvörðun hæstaréttar í sér að áfrýjunardómstólar munu fjalla um málið, líkt og yfirmenn Microsoft hafa krafist, en sérfræðingar telja fyrirtækið eiga betri möguleika á sýknun fari málið fyrst fyrir áfrýjunardómstól. "Beinni áfrýjun er neitað og málinu vísað til áfrýjunardómstóla í Kólumbíuríki," sagði í yfirlýsingu hæstaréttar.

Ekki voru dómararnir níu þó allir sammála og skilaði Stephen Bryer séráliti, þar sem hann lýsti þeirri skoðun sinni að málið ætti að heyra beint undir hæstarétt þar sem það hefði "veruleg áhrif á mikilvægan geira efnahagslífsins".

Steven Ballmer, framkvæmdastjóri Microsoft, sagði í viðtali við CNBC-sjónvarpsstöðina að hann væri ekki viss um að úrskurðurinn breytti miklu. "Þetta er aðeins eitt skrefið enn í ferlinu. Við erum enn jafn sannfærð um lagalega stöðu okkar og munum með ánægju kynna hana fyrir áfrýjunardómstólnum," sagði Ballmer.

Málsókn fyrir áfrýjunardómstól hefst 5. október nk., en það var í apríl sl. sem dómstólar úrskurðuðu að Microsoft misnotaði einokunarstöðu þá sem Windows-stýrikerfið skapaði fyrirtækinu og í júní var fyrirtækinu skipað að skipta starfsemi sinni í tvennt.

Washington. AFP.

Höf.: Washington. AFP