EVRÓPUSAMBANDIÐ hefur sagt að fríverslunarsamningar falli úr gildi þegar viðkomandi ríki gangi í ESB en Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra segir að í þessu sambandi gildi reglur og hefðir Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.

EVRÓPUSAMBANDIÐ hefur sagt að fríverslunarsamningar falli úr gildi þegar viðkomandi ríki gangi í ESB en Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra segir að í þessu sambandi gildi reglur og hefðir Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.

Árni segir að reynt hafi verið að fá breytingar á bókun nr. 9, sem eru tollasamningarnir um sjávarútveg, en Evrópusambandið hafi verið tregt til að breyta nema EFTA-ríkin breyttu einhverju á móti.

Rök þeirra væru hins vegar að EES-samningurinn væri síbreytilegur og því væri eðlilegt að bókun nr. 9 væri líka skoðuð. "Þetta er talsvert flókið mál því þetta snertir ekki bara okkur heldur líka hin EFTA-ríkin sem eru aðilar að samningnum," segir Árni og bætir við að haldið verði áfram að vinna í þessu máli.

Varðandi fríverslunarsamninga, sem Ísland hefur gert við ríki sem hugsanlega ganga í Evrópusambandið, segir Árni að þegar Svíþjóð, Finnland og Austurríki hafi orðið meðlimir hafi þeim fríverslunarsamningum verið breytt í tollkvóta á þeim tegundum sem enn eru með tolla eins og t.d. síld. "Þetta var gert í samræmi við reglur og hefðir Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar þar sem tollar eru ekki hækkaðir án þess að einhver ívilnandi ákvæði komi á móti. Ég á ekki von á öðru en það verði áfram gert þegar ný ríki ganga í Evrópusambandið þó að framkvæmdastjórnin sé kannski í þessu tilfelli að skapa sér einhverja samningsstöðu. Menn leika sér ekkert að því að brjóta reglur og hefðir Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og ég á ekki von á að Evrópusambandið muni gera það þegar á reynir," segir Árni.