SAMKYNHNEIGÐIR karlar munu í framtíðinni geta getið börn saman með svipaðri tækni og notuð var til að koma kindinni Dolly í heiminn, að því er virtur breskur líftæknifræðingur fullyrðir. Dr.

SAMKYNHNEIGÐIR karlar munu í framtíðinni geta getið börn saman með svipaðri tækni og notuð var til að koma kindinni Dolly í heiminn, að því er virtur breskur líftæknifræðingur fullyrðir.

Dr. Calum MacKellar, sem kennir lífsiðfræði og lífefnafræði við Edinborgarháskóla, telur að frekari rannsóknir á einræktun geti leitt til þróunar tækni, sem gerði karlkyns pörum kleift að geta börn saman, án þess að nota erfðaefni úr konu. Þó væri fyrirsjáanlegt að kvenkyns "leigumóðir" þyrfti eftir sem áður að ganga með barnið.

MacKellar fullyrðir að mögulegt verði að búa til nokkurs konar "karlegg" með því að fjarlægja kjarnann úr gjafaeggi frá konu og setja kjarnann úr sáðfrumu karlmanns í staðinn. Þetta "egg" yrði svo unnt að frjóvga með sæði úr öðrum karlmanni og barnið myndi þá eiga tvo líffræðilega feður.

Hann viðurkennir að enn séu margar genafræðilegar hindranir í veginum fyrir því að þetta verði hægt, og nefnir til dæmis að ákveðin gen frá móður séu nauðsynleg til að fóstur spendýra þroskist eðlilega. MacKellar segist þó telja að framfarir í líftækni verði svo örar að þessar hindranir verði fljótlega yfirstignar. Þá væri fræðilegur möguleiki á að tveir karlar gætu eignast barn saman.

"Það er ekki langt síðan almennt var litið á þá tækni sem notuð var til að einrækta kindina Dolly sem hugarburð í ætt við vísindaskáldskap," sagði MacKellar. "Nú er hún hins vegar raunveruleg og nauðsynlegt er að lög verði endurskoðuð í samræmi við það."

London. The Daily Telegraph.