HÉRAÐSDÓMUR Reykjavíkur tók í gær fyrir mál Knattspyrnufélags Reykjavíkur gegn Fram-Fótboltafélagi Reykjavíkur.

HÉRAÐSDÓMUR Reykjavíkur tók í gær fyrir mál Knattspyrnufélags Reykjavíkur gegn Fram-Fótboltafélagi Reykjavíkur. KR telur nafnið Fram-Fótboltafélag Reykjavíkur vera of líkt nafni KR sem skapi hættu á nafnaruglingi, ekki síst þegar nöfn félaganna eru þýdd yfir á erlend tungumál.

KR fer fram á að Fram-Fótboltafélagi Reykjavíkur verði með dómi gert að afmá nafnið úr hlutafélagaskrá og bannað að nota nafnið hvort sem er á íslensku eða á erlendum tungumálum að öðru leyti. KR bendir á að ensk þýðing á heiti KR er "Reykjavík Football Club" eða "Football Club of Reykjavík." Í styttri útgáfu yrði nafnið Reykjavík FC. Þýðing á heitinu Fram-Fótboltafélag Reykjavíkur yrði nákvæmlega sú sama. KR segir að þegar hafi borið á því að ruglingur hafi skapast á milli félaganna.

Fram hafnar kröfugerð KR og segir fráleitt að KR geti eignað sér nafn Reykjavíkurborgar. Það sé alþekkt að fleiri en eitt knattspyrnufélag kenni sig við sömu borgina.

Fyrir um tveimur árum lagði KR fram kæru til Samkeppnisstofnunar þar sem farið var fram á að Fram gæti ekki notað nafnið Fótboltafélag Reykjavíkur. Samkeppnisráð komst þá að þeirri niðurstöðu að auðkenni félaganna væru það frábrugðin að ekki yrði villst á þeim. Svo lengi sem Fram-nafnið kæmi fyrir í heitinu væri engin hætta á ruglingi. Með vísan til sömu sjónarmiða var ekki talið að þýðing heitanna yfir á ensku skapaði hættu á ruglingi.