INNHEIMTAR tekjur ríkissjóðs voru 5,2 milljörðum króna umfram greidd gjöld á fyrstu átta mánuðum ársins, að því er fram kemur í tölum fjármálaráðuneytisins.

INNHEIMTAR tekjur ríkissjóðs voru 5,2 milljörðum króna umfram greidd gjöld á fyrstu átta mánuðum ársins, að því er fram kemur í tölum fjármálaráðuneytisins. Í samanburði við áætlanir er þessi niðurstaða hagstæðari en reiknað hafði verið með, að sögn ráðuneytisins.

Greiðsluafkoma ríkissjóðs neikvæð

Hreinn lánsfjárjöfnuður var jákvæður um 3 milljarða króna, en á sama tíma í fyrra var lánsfjárjöfnuðurinn hagstæður um 7 milljarða kr. og árið 1998 um einn milljarð. Þessi stærð gefur til kynna hvaða fjármagn ríkissjóður hefur til ráðstöfunar til að greiða niður skuldir. Á fyrstu átta mánuðum ársins námu afborganir eldri lána 28,5 milljörðum króna en nýjar lántökur 25 milljörðum. Greiðsluafkoma ríkissjóðs var því neikvæð um tæpan ½ milljarð króna.

Heildartekjur ríkissjóðs fyrstu átta mánuði ársins námu 134,3 milljörðum króna, samanborið við 121,7 milljarða á sama tíma í fyrra og 105,7 milljarða árið 1998. Hækkunin frá fyrra ári nemur 10,3%, samanborið við 15,2% árið áður. Breyting skatttekna milli ára er svipuð, en þær hækka um 11% fyrstu átta mánuði þessa árs, samanborið við 16,3% hækkun í fyrra. Segir ráðuneytið að minni tekjuaukning á þessu ári samanborið við síðastliðið ár sé ákveðin vísbending um að þenslan í efnahagslífinu sé í rénun.

Heildarútgjöld ríkissjóðs námu um 129,1 milljarði króna á fyrstu sjö mánuðum ársins og hækka um 14,7 milljarða, eða 12,8%, frá sama tíma í fyrra. Tæpan þriðjung þessarar hækkunar, eða 4,3 milljarða, má rekja til aukinna vaxtagreiðslna, fyrst og fremst vegna sérstakrar forinnlausnar spariskírteina á þessu ári. Útgjaldahækkunin, án vaxta, nemur um 9,8% milli ára, sem er heldur hærra en sem nemur almennum verðlagshækkunum og hækkun launavísitölu á sama tíma.

Útgjöld til almennra mála hækka

Útgjöld til almennra mála, en þar falla undir æðsta stjórn ríkisins, dómgæsla, löggæsla o.fl., hækka um 15% milli ára. Gætir þar m.a. áhrifa sérstaks úrskurðar um launahækkun lögreglumanna, auk tímabundins kostnaðar vegna sérstakra verkefna forsætisráðuneytis. Greiðslur til utanríkisþjónustunnar standa nánast í stað milli ára þrátt fyrir aukinn rekstrarkostnað, þar sem á móti vegur lækkun stofnkostnaðar.