STATKRAFT, norska ríkisorkufyrirtækið, er metið á 27-50 milljarða norskra króna af tveimur ráðgjafarfyrirtækjum, sem greinir á í mati sínu. Þetta samsvarar 243-450 milljörðum íslenskra króna.

STATKRAFT, norska ríkisorkufyrirtækið, er metið á 27-50 milljarða norskra króna af tveimur ráðgjafarfyrirtækjum, sem greinir á í mati sínu. Þetta samsvarar 243-450 milljörðum íslenskra króna.

Í Dagens næringsliv er greint frá því að norski olíu- og orkumálaráðherrann Olav Akselsen, hafi fengið fyrirtækin Ernst & Young og Dresdner Kleinwort Benson til að meta verðmæti Statkraft áður en að einkavæðingu þess kemur. Fyrrnefnda fyrirtækið metur Statkraft á 45-50 milljarða norskra króna, en hið síðarnefnda á 27-33 milljarða.

Ástæðan fyrir miklum mun á verðmætamati ráðgjafarfyrirtækjanna er talin að fyrirtækin beita ólíkum aðferðum, þar sem Dresdner Kleinwort Benson leggur mun meiri alþjóðlegar áherslur en E&Y. Bæði fyrirtækin verðleggja Statkraft þó hærra en bókfært verð segir til um, en það er samkvæmt olíu- og orkumálaráðuneytinu 22 milljarðar norskra króna um mitt ár.

Ráðherrann áætlar að fram fari reglulegt mat á Statkraft þangað til einkavæðing þess hefst en tímasetningin hefur ekki verið ákveðin. Einkavæðingaráform ríkisstjórnarinnar eru lengra komin varðandi Telenor og Kreditkassen, einnig eru Statoil og Den norske Bank ofarlega á blaði.

Ósló. Morgunblaðið.