ÍSLEIFUR VE var annar báturinn til að byrja á síld á vertíðinni en hann byrjaði á síldinni á sunnudag og fékk þá rúm 190 tonn í fyrsta kasti. Aflanum var landað hjá Síldarvinnslunni hf. í Neskaupstað á mánudag en um sex tíma sigling er þangað frá...

ÍSLEIFUR VE var annar báturinn til að byrja á síld á vertíðinni en hann byrjaði á síldinni á sunnudag og fékk þá rúm 190 tonn í fyrsta kasti. Aflanum var landað hjá Síldarvinnslunni hf. í Neskaupstað á mánudag en um sex tíma sigling er þangað frá miðunum. Að sögn Gunnars Jónssonar, skipstjóra á Ísleifi, var síldin falleg. Vegna glærátu var hins vegar ekki hægt að heilfrysta hana en það sem ekki er hægt að flaka fer í bræðslu.

Þrír síldarbátar voru á miðunum á Breiðdalsgrunni rétt norðan við Berufjarðarálinn í gær, Jóna Eðvalds SF, Ísleifur VE og Svanur RE. Jóna byrjaði fyrir um hálfum mánuði en Svanur kom á miðin á mánudagskvöld, rétt á eftir Ísleifi.

Skipverjar á Ísleifi köstuðu á mánudagskvöld og létu síðan reka. "Við erum að gera tilraun við að átutæma hana," segir Gunnar. "Þá látum við reka með nótina á síðunni í 20 tíma. Þetta er mjög algengt til dæmis í Smugunni þegar verið er að reyna að koma með síld til vinnslu í Noregi. Við ætlum að gera þessa tilraun meðan átan er í síldinni því annars fer stærsti hlutinn í bræðslu en í kaldafýlu þýðir ekki að reyna að átutæma."

Gunnar segist ekki hafa farið mikið um að þessu sinni en þar sem hann hafi farið hafi hann ekki séð mikið, enn sem komið er. "Þetta er vægast sagt lítið," segir hann og bætir við að hann eigi von á fleiri bátum á miðin innan skamms.

Ísleifur og Svanur landa báðir hjá Síldarvinnslunni en Jóna Eðvalds hjá Skinney-Þinganesi hf. á Höfn í Hornafirði.